Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, er eini þingmaðurinn sem hefur ekkert mætt á Alþingi, hvorki á þingsetningu né eftir að þing kom aftur saman eftir kosningar. Hann kveðst engu að síður hafa fylgst með þingfundum, eins og aðrir þingmenn.
Samkvæmt vef Alþingis er Sigmundur Davíð eini þingmaðurinn sem hefur ekki tekið þátt í neinum atkvæðagreiðslum eða öðrum þingstörfum frá því að Alþingi kom aftur saman eftir kosningar 29. október síðastliðinn. Þá er það fyrir utan Ólöfu Nordal, þingmann Sjálfstæðisflokks og starfandi innanríkisráðherra, sem kallaði inn varamann á fyrsta degi vegna veikinda. Ólöf mætti þó við þingsetningu 6. desember.
„Hvers konar nálgun er þetta á viðtal?“
Fréttastofa spurði Sigmund Davíð út í fjarvistir hans á þingi, í veislu sem hann hélt á Akureyri í gær vegna aldarafmælis Framsóknarflokksins. Þá hafði hann áður sagt í sama viðtali að Ríkisútvarpið beri mikla ábyrgð á innanflokksátökum flokksins.
Fréttamaður spyr: „Alþingi kom saman, þú ert oddviti Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, Alþingi kom saman sjötta desember, þú hefur ekkert mætt í vinnuna, hvers vegna ekki?“
Sigmundur Davíð svarar: „Sko, þessi viðtöl við þig, eiga þau öll að vera svona, á þessum nótum? Á 100 ára afmæli flokksins líka. Síðast baðstu mig um að veita þér viðtal á ákveðnum forsendum og það gekk ekki alveg eftir. Svo mætirðu hér í 100 ára afmæli og spyrð spurninga eins og þessara, á þetta bara að vera svona. Ekkert mætt í vinnuna? Hvers konar nálgun er þetta á viðtal?“
Fréttamaður RÚV: „Þú hefur ekki mætt á Alþingi síðan það kom saman, það er eðlilegt að spyrja hvers vegna ekki.“
Sigmundur Davíð: „Þá geturðu bara beðið mig um viðtal um það. Þú kemur ekki hingað og biður mig um viðtal um afmæli flokksins og kemur með útúrsnúninga eins og þetta.“
„Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu.“
Það skal tekið fram að fréttamaður RÚV fullyrti aldrei við Sigmund Davíð að viðtalið yrði aðeins um aldarafmæli Framsóknarflokksins. Eftir að fréttamaðurinn hafði bent honum á að stjórnmálamenn þurfi að vera viðbúnir því að vera spurðir út í störf sín, féllst hann á að svara spurningunni ef hún yrði umorðuð.
Fréttamaður: „Alþingi kom saman 6.desember, þú hefur ekkert mætt á þingfundi, hvers vegna ekki?“
Sigmundur Davíð: „Ég hef fylgst með þingfundum eins og aðrir þingmenn og gangi mála þar...“
Fréttamaður: „Þú hefur þó ekki fylgst eins vel með og aðrir þingmenn því aðrir þingmenn hafa verið að mæta í þingsal, en ekki þú.“
Sigmundur Davíð: „Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu, og sérstaklega þér í minn garð. Ég hef fylgst með umræðum í þinginu og störfunum þar eins og aðrir þingmenn. Segjum þetta gott.“
Það skal tekið fram að fréttastofa RÚV bauð í dag Sigmundi að veita nýtt viðtal um fjarvistir hans á þingi og stjórnarmyndunarþreifingar. Þeirri beiðni hefur ekki verið svarað.
Hægt er að horfa á lengri útgáfu af viðtalinu sem tekið var við Sigmund Davíð í gær, í spilaranum hér að ofan. Klipptir hafa verið burt tveir bútar úr myndskeiðinu; annars vegar þar sem Sigmundur Davíð mismælir sig og hins vegar þar sem fréttamaður og hann ræða óformlega saman og þar með ekki í viðtali.