Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í kvöldfréttum útvarps að það kólni skarpt þegar hann gengur í vestanstorminn í kvöld. Þá breytist úrkoman í slyddu, snjóél og éljagang. Þorsteinn kvaðst jafnframt hafa áhyggjur af því að flughálka kynni að myndast á vegum.

Skilaboð Þorsteins voru því einföld - fólk haldi sig heima í kvöld og í nótt. Hann sagði veðrið eiga að ganga niður með morgninum þótt áfram verði suðvestanátt með éljagangi. „Svo gengur þessi snarpa vestanátt niður þegar líður á kvöldið suðvestanlands,“ sagði Þorsteinn.

Búast má við að næsta eina og hálfa tímann gangi hann í vestanstorm - spáð er roki og jafnvel ofsaveðri suðvestanlands. Með kvöldinu færist veðurofsinn síðan norður yfir landið og seint í kvöld og í nótt verður þar suðvestan stormur og ofsaveður.

Í kvöldfréttum útvarps kom einnig fram að björgunarsveitir væri með talsverðan viðbúnað og að þær væru allar í viðbragðsstöðu vegna veðursins.

Í ábendingu frá veðurfræðingi hjá Vegagerðinni var sérstaklega varað við snörpum vindi - allt að 50 metrum á sekúndu frá því upp úr klukkan 22 og fram á nótt við Sauðárkrók og á veginum milli Ólafsfjarðar og Akureyrar.