Foreldrar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra keyptu einbýlishús á Flórída í gegnum félag á Bresku-Jómfrúaeyjum um síðustu aldamót. Húsið er enn skráð í eigu félagsins, sem þó var afskráð í fyrirtækjaskrá á Bresku-Jómfrúaeyjum fyrir hartnær fjórum árum. Faðir Bjarna segir að unnið sé að því að færa eignarhald hússins til Íslands.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur verið gagnrýndur eftir að upplýst var að hann hefði átt hlut í félagi á Seychelles-eyjum, þekktu skattaskjóli. Faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefur lengi verið umsvifamikill fjárfestir auk þess að vera bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í þrjú kjörtímabil og stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands um tíma.

Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media, sem var birt í morgun, var Benedikt, líkt og Bjarni, viðskiptavinur panömsku lögmannsstofunnar Mossack Fonseca, ásamt konu sinni. Hjónin hafi um árabil ráðið yfir aflandsfélagi sem Kaupþing í Lúxemborg virðist hafa útvegað.

Félagið var stofnað snemma árs 2000 og nefnt Greenlight Holding Luxembourg S.A. Það var þó ekki skráð í Lúxemborg heldur á aflandseynni Tortólu á Bresku-Jómfrúaeyjum. Félagið var svo látið kaupa hús í einbýlishúsahverfi á vesturströnd Flórída, á rúmlega 600 þúsund dollara, sem þá jafngilti rúmlega 45 milljónum króna.

Fasteignakaup félagsins sjást í opinberum skrám í Flórída. Samkvæmt skráningunni er húsið enn í eigu Tortóla-félagsins, en í upplýsingum frá fyrirtækjaskrá á Bresku-Jómfrúaeyjum var félagið afskráð þar 2010. Benedikt segir í svari til fréttastofu að félagið sé nú í slitameðferð. Unnið sé að því að færa eignarhald hússins til Íslands.

Hann segir jafnframt í yfirlýsingu:

„Árið 2000 keyptum við hjónin hús í Floridafylki í Bandaríkjunum. Húsið var skráð á eignarhaldsfélag á Bresku Jómfrúareyjum að ráðleggingum bandarískra lögmanna. Engar aðrar eignir hafa verið í félaginu. 

Félagið hefur ávallt verið talið fram til skatts á Íslandi og aldrei haft neinn rekstur með höndum og engar tekjur.

Ég hef alla tíð búið á Íslandi og greitt mína skatta hér.  Ég hef ekki átt neitt fé á aflandseyjum.“