Erfingjar hjónanna Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur hyggjast fá erlent rannsóknarfyrirtæki til að leita að týndum sjóðum foreldra sinna erlendis. Upplýsingar úr Panama-skjölunum um stofnun aflandsfélags Júlíusar Vífils Ingvarssonar, eins erfingjanna og fyrrum borgarfulltrúa, settu málið í nýtt ljós að mati systkina hans.

Fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld og meðal annars greint frá nýjum upplýsingum sem komið hafa fram í málinu. Sjá má brot úr þætti kvöldsins í spilaranum hér að ofan.

Byggði upp stórfyrirtæki

Ingvar Helgason féll frá árið 1999. Honum og eiginkonu hans, Sigríði Guðmundsdóttur, hafði þá tekist að byggja upp eitt stærsta fyrirtæki landsins á starfsævinni.  Um miðja síðustu öld hafði fyrirtækið byrjað starfsemi í lítilli íbúð þeirra hjóna í Vestubæ Reykjavíkur með innflutningi á leikföngum og gjafavöru. 

Ingvar átti síðar eftir að flytja fyrstu Trabant-bifreiðina til Íslands frá Austur-Þýskalandi og síðan fylgdu umboð fyrir fleiri tegundi bíla og búvéla. Fyrirtæki hjónanna og barna þeirra átta, var orðið að stórveldi þegar Ingvar lést. Fyrirtækin skiluðu góðum hagnaði og hann sjálfur var meðal auðugustu manna landsins. 

Verðlaust fimm árum síðar

Því kom það mörgum á óvart þegar fyrirtæki hans Ingvar Helgason hf og Bílheimar hf voru seld úr höndum erfingja hans og eiginkonu fyrir nokkrar milljónir króna 5 árum eftir andlát hans. Staðan var þá orðin þannig að salan var einungis liður í því að forða fyrirtækjunum frá gjaldþroti.

Leitin að varasjóðnum

Sigríður Guðmundsdóttir, eftirlifandi eiginkona Ingvars, lést síðastliðið haust. Hún hafði þá setið í óskiptu búi frá andláti eiginmanns síns. Erfingjar hjónanna, eftirlifandi börn þeirra sjö, og erfingjar þess áttunda sem nú er látið, eiga nú í deilum vegna skipta dánarbúsins. Stærstu ágreiningsefnin snúa þó ekki að því sem þegar er vitað um í búinu. Enda er ljóst að eftir að fjölskyldufyrirtækið fór úr höndum dánarbúsins fyrir brot af fyrra verðmæti, voru eignirnar ekki stórar.

Deiluefnið snýr að eignum sem meirihluti erfingjanna telur að vanti í dánarbúið. Varasjóði Ingvars heitins sem hann mun hafa safnað á reikninga í erlendum banka, af umboðslaunum sem hann fékk greidd frá þeim erlendu framleiðendum sem hann átti í viðskiptum við í áratugi. Reikninga sem eiginkona hans reyndi árangurslaust að leita að eftir andlát manns síns.

Eftir því sem næst verður komist töldu ættingjarnir að um væri að ræða nokkur hundruð milljónir króna á þeim tíma þegar Ingvar lést. Upphæð sem í dag væri vel annan milljarð króna hið minnsta.

Fjallað verður um málið í Kastljósi kvöldsins.