Myndir úr íslenskum svínabúum sýna að gyltur voru í sumum tilfellum hafðar á svo þröngum básum að þær gátu ekki rétt úr fótunum, þegar Matvælastofnun gerði úttekt á íslenskum svínabúum í fyrra.

„Það er alveg augljóst að þetta brýtur lög um velferð dýra. Þetta dýr getur ekki hreyft sig og hvílst eðlilega. Það vita allir sem hafa prófað að liggja lengi án þess að geta rétt úr sér að þú færð ekki eðlilega hvíld á því,“ segir dýralæknir hjá Matvælastofnun um myndirnar sem fréttastofa birti í kvöldfréttum sjónvarps. Umfjöllunina má sjá hér að ofan.

Matvælastofnun neitar að gefa upp á hvaða búum myndirnar voru teknar. „Því miður þá eru dýravelferðarmál flokkuð sem viðkvæm mál einstaklings. Samkvæmt upplýsingalöggjöfinni þá eru þau undanþegin upplýsingagjöf, segir Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun. Hún segir að aðstæður eins og sjást á myndunum séu sem betur fer ekki algengar en þær fyrirfinnist, eins og sjáist.