Íslensk kona opnaði tangóstað í Buenos Aires

Innlent
 · 
Mið- og Suður-Ameríka
 · 
Morgunvaktin
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni

Íslensk kona opnaði tangóstað í Buenos Aires

Innlent
 · 
Mið- og Suður-Ameríka
 · 
Morgunvaktin
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
21.04.2017 - 10:46.Vera Illugadóttir.Morgunvaktin
Helen Halldórsdóttir réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar hún opnaði eigin tangóstað í sjálfri Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, sem stundum er kölluð „Mekka tangósins“.

Helen, sem Argentínumenn gáfu viðurnefnið „La Vikinga“, sagði frá tangónum og lífinu í Buenos Aires á Morgunvaktinni á Rás 1. 

Áskorun að láta stjórnast

Helen byrjaði að dansa tangó í Svíþjóð. Hún segir að dansinn hafi í upphafi verið nokkur áskorun fyrir hana enda snúist tangó að miklu leyti um það að láta stjórnast af dansfélaganum, karlmanninum, sem hún kunni illa í fyrstu. 

Hún tók þó áskoruninni og heillaðist á endanum af tangónum. „Við þurfum að vera akkúrat í núinu til að dansa tangó,“ segir hún um ástæður þess að tangóinn heillar svo marga.

„Við getum ekkert verið að hugsa um eitthvað annað þegar við erum að dansa tangó. Svo er yndisleg og seiðandi tónlist, og dregur líka fram bæði þetta mjúka og kvenlega, og það karlmannlega.“ 

Umdeildur og opinn tangóstaður

Helen var innan fárra ára farin að kenna öðrum dansinn. Frá Svíþjóð lá leiðin svo til Buenos Aires. Þar eru ótal tangóstaðir, tangósýningar og fleira, en þrátt fyrir það opnaði Helen fljótlega sinn eigin dansstað. 

„Mér fannst vanta stað þar sem allir væru velkomnir,“ segir Helen. Konur gætu til að mynda leitt dansinn og samkynja pör dansað saman, nokkuð sem ekki var vel séð á hefðbundnari tangóstöðum.

Staðurinn var því nokkuð umdeildur í fyrstu, en gekk þó vel og varð að stökkpalli fyrir unga tónlistarmenn og dansara. Í dag ferðast Helen um heiminn og kennir tangó og hefur meðal annars unnið að því að vekja athygli á tangó meðal hinsegin fólks. 

Hlustið á allt viðtalið við Helen í spilaranum hér að ofan.