Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að Íslendingar hjálpi Rússum í efnahagsvandræðum þeirra. Rússar hafi sýnt Íslendingum drenglyndi eftir hrun. Íslendingar eigi ekki að blanda sér í deilur stórvelda.
Rússar glíma við mikinn efnahagsvanda eftir lækkun olíuverðs á heimsmörkuðum og efnahagsþvinganir sem Vesturlönd, þar á meðal Ísland, hafa beitt þá vegna framferðis þeirra í garð Úkraínu.
„Þarna eru miklir hagsmunir undir, ekki bara fyrir Rússa heldur líka fyrir okkur. Þarna fer um 31 prósent af makrílveiði okkar,“ segir Ásmundur. Makrílveiðin hafi reynst gullkista fyrir Íslendinga. Íslenskir fiskútflytjendur eru hættir að flytja fisk til Rússlands vegna þess hversu erfiðlega gengur að fá greitt fyrir afurðir. Ásmundur segir að Íslendingar megi illa við því að missa dampinn niður í makrílútflutningi.
Ásmundur rifjar upp að Rússar hafi boðist til að lána Íslendingum fé eftir bankahrun þegar fáir aðrir hafi gert það. Mikilvægt sé að eiga góð samskipti við Rússa eins og aðrar þjóðir. „Við erum litlu strákarnir í leiknum. Við eigum að láta stóru strákana um að slást. Litlu strákarnir eiga að verja sína hagsmuni og við eigum að gera það.“ Hann segist í engu vera að taka undir framferði Rússa í Úkraínu en telji þá vera viðskiptaþjóð sem hugsa þurfi til, eins og Úkraína.
Ásmundur segist hafa gengið með þá hugmynd í maganum um nokkurt skeið að Íslendingar ættu að athuga hvort þeir gætu hjálpað Rússum. Sumir hafi ráðlagt honum að hafa ekki orð á þessu en aðrir hvatt hann áfram. „Síðan í morgun kannski koma andinn yfir mig á jóladagsmorgni þegar ég hafði góðan tíma.“
„Hvort sem við tökum þátt í þessu viðskiptabanni eða ekki, sem við reyndar erum ekki aðilar að, held ég að við getum látið gott af okkur leiða með því að varpa fram þessari hugmynd. Ég held líka að rússneska þjóðin eigi það nú kannski inni hjá okkur því þeir stigu fljótt fram þegar við lentum í kreppunni og buðust til að lána okkur peninga. Það var meira en margar nágrannaþjóðir okkar gerðu.“