Stjórnmálamenn eiga að taka sig til milli jóla og nýárs að vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar, segir Guðni Th. Jóhannesson forseti. Hann segist leyfa sér að vera bjartsýnn á stjórnarmyndun á næstu viku til tíu dögum, það sé líka í verkahring forseta að vera bjartsýnn. „Ég yrði nú illa svikinn finnst mér ef línur hefðu ekki skýrst vel nú strax eftir jól og kannski þannig að ný ríkisstjórn verði tekin við fyrir áramót, en það er ekkert hundrað í hættunni ef það hefur ekki gerst.“

„Það var skynsamlegt að leyfa þinginu að ljúka því sem þurfti að ljúka þar og hverfa þá um stund frá stjórnarmyndunarviðræðum. Nú hefur þingið lokið störfum og gert það með miklum sóma held ég að megi segja. Þá er næsta verk að fagna jólahátíð en síðan þurfa menn að einhenda sér í það að mynda hér ríkisstjórn.“

Aðspurður hvort það ætti að gerast milli jóla og nýárs svarar Guðni. „Ég myndi ætla það að þá verði menn að setjast niður og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.“ Guðni segist alltaf vera við símann og fylgjast vel með, það kæmi honum þó á óvart ef einhver hefði samband við sig í dag og segðist í ljósi funda, þreifinga og viðræðna geta tekið upp viðræður um myndun nýrrar stjórnar. „En ef það gerist þá er það fagnaðarefni en eins og ég sagði finnst mér líklegra að það skref verði stigið milli jóla og nýárs.“

Guðni segir það í verkahring þingsins að koma sér saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar. „Ég tek við skilaboðum frá þinginu og vinn svo út úr þeim með þingheimi þannig að þaðan kemur frumkvæðið.“

Ýmsar leiðir færar við úthlutun stjórnarmyndunarumboðs

Forseti sagði það fara eftir efnum og aðstæðum hverju sinni hver fengi stjórnarmyndunarumboð næst ef enginn formaður stígur fram og lýsir möguleikum á að ná saman ríkisstjórn. „Ef það er enginn augljós kostur þarf að fara eftir öðrum þáttum og þá kemur það sjónarmið til álita að hver stjórnmálaleiðtogi fái að spreyta sig en þetta er alltaf háð mati á aðstæðum hverju sinni,“ segir Guðni. Þetta fari ekki eingöngu eftir stærð þingflokka eða að allir fái jafn langan tíma. Þetta ráðist einfaldlega af því hvað sé líklegast til að skila árangri.

Guðni segist hafa séð ný vinnubrögð á Alþingi síðustu daga. Það skipti miklu máli. Hann segir skipta máli að meirihlutinn leyfi minnihluta að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og að þeir sem eru í minnihluta geti ekki beitt bellibrögðum eða málþófi til að koma í veg fyrir framgang mál. Hann segir betri vinnubrögð á Alþingi auka traust þingsins.