Húsbíll fauk út af veginum við Reynisfjall

15.05.2017 - 20:39
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir N. Kjartansson
Einn slasaðist alvarlega þegar húsbíll fauk út af Suðurlandsvegi við Reynisfjall um sexleytið í dag. Sex erlendir ferðamenn voru í bílnum þegar slysið varð. Fimm sluppu óslasaðir en sá sjötti var fluttur töluvert slasaður á Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík. Sá var fluttur fyrsta spölinn með sjúkrabíl en þyrla Landhelgisgæslunnar var send á móti sjúkrabílnum og tók slasaða ferðamanninn um borð við veginn við Landeyjahöfn. Komið var með hann á Landspítalann um áttaleytið.

Húsbíllinn er gjörónýtur. Sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við á tíunda tímanum í kvöld sagði að brak úr bílnum hefði fokið langar leiðir, allt vestur fyrir Reynisfjall. Dekkin sem sjá má á myndum sem fylgja fréttinni voru notuð sem farg til að hjólhýsið fyki ekki af slysstað í veðurhamnum.

Stormur hefur geisað á þessum slóðum seinni part dags og vindur farið yfir 30 metra á sekúndu í hviðum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má reikna með hviðum, 30 til 40 metrum á sekúndu í Öræfum til klukkan tíu í kvöld og í Mýrdal og undir Eyjafjöllum til klukkan ellefu.

Að því er fram kom á Facebook-síðu Lögreglunnar á Suðurlandi klukkan tuttugu mínútur yfir átta var lögregla þá enn við störf á slysstað.

Björgunarsveitarmenn í Öræfum og undir Eyjafjöllum hafa í kvöld stöðvað fólk á húsbílum og minni rútum og varað það við veðurhamnum. 

Uppfært 21:38. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir N. Kjartansson
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir N. Kjartansson
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV