Hreinsa krapa og hálku

07.06.2017 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerdin.is - Vegagerðin
Vetrarfærð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, krapi og hálka og vinnur Vegagerðin að hreinsun eftir snjókomu í gærkvöld og í nótt. Hálka er á Dettifossvegi en krapi á Hólssandi og eins á Hófaskarði. Hellisheiði eystri er þungfær en krapi er bæði á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra.

Hreinsunarstarf hefur staðið síðan í morgun. „Eftir því sem hærra dregur er meiri snjór,“ segir Magnús Jóhannsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ. Nú er verið að moka Hellisheiði eystri og að sögn Magnúsar er hún nánast ófær. Á Möðrudalsheiði er snjór og ekki fært fólksbílum.

Magnús segir veður sem þetta ekki óalgengt í júní og kveðst muna eftir því verra. Hann segir vegfarendur ekki alltaf viðbúna færðinni og brýnir fyrir fólki að fara varlega.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Húsavík hefur ekki komið til útkalla vegna ófærðar.