Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, fékk mestan aksturkostnað endurgreiddan frá Alþingi í fyrra eða rúmar 4,6 milljónir. Það eru um 385 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Ásmundur segist fara fyllilega eftir öllum reglum, hann hafi aldrei fengið eina einustu athugasemd frá þinginu og sé með nákvæma dagbók þar sem finna megi yfirlit yfir það sem hann hafi gert í hverri ferð fyrir sig og hvern hann hafi hitt.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svaraði í gær fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um aksturskostnað þeirra þriggja þingmanna hvers kjördæmis sem fengu mest endurgreitt. 

Svarið var ekki ítarlegt því forseti þingsins sagði að almennt hafi ekki verið veittar persónugreinanlegar upplýsingar um þessar endurgreiðslur. Skrifstofustjóri Alþingis sagði í samtali við fréttastofu að eðlilega væri akstur langmestur í Suðurkjördæmi. Þetta væri langvíðfeðmasta kjördæmið auk þess sem þar væri lítið áætlunarflug.

Ásmundur ræddi akstursgreiðslurnar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segist keyra um 20 til 25 þúsund kílómetra á ári til að fara í vinnu og bendir á að aðrir landsbyggðarþingmenn hafi húsnæðiskostnað sem sé eflaust álíka há upphæð og hann fái fyrir þann akstur. „Ég sinni kjördæminu afar vel og bý í öðrum endanum á kjördæmi sem er 700 kílómetra langt.  Það líða ekki margar helgar sem ég hef frí frá því að sinna erindum í kjördæminu, fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo eru sumrin upptekin af alls konar bæjarhátíðum.“

Ásmundur segist hafa lagt sig mjög fram um það að rækta samband sitt við fólkið og finni mikla ánægju með það. „Og ég ætla að halda því áfram. Ég er ekki eins og hlaupari á Ólympíuleikunum sem hættir þegar hann fær gullverðlaun um hálsinn, ég held áfram að keyra.“ Ásmundur segir að ef það eigi að bera hann saman við þingmann að austan eða norðan eða af Vestfjörðum þá verði að skoða ýmislegt.  Þeir „fljúgi fram og til baka á þingið, hafa bílaleigubíl í bænum, bílaleigubíl í kjördæminu. Ef menn ætla að bera saman kostnað við landsbyggðarþingmenn þá verða menn að taka þetta með í reikninginn.“

Ásmundur segir það ekki hafa staðið á sér að nota bílaleigubíl en það verði að hafa samræmdar reglur um slíka notkun. „Og við þurfum að fá bíl þannig að maður getur ferðast eins og í veðri í dag. Ég er með góðan bíl til að komast fram og til baka og get notað hann sem skrifstofuna mína.“ Hann viti um þingmenn sem hafi fengið „afdankaða“ bílaleigubíla, keyrða kannski 400 þúsund kílómetra og hafi lent í miklum vandræðum vegna þessa.

Ásmundur segist fara hundrað prósent eftir öllum reglum, hann hafi aldrei fengið eina einustu athugasemd frá þinginu og sé með nákvæma dagbók þar sem finna megi yfirlit yfir það sem hann hafi gert í hverri ferð fyrir sig og hvern hann hafi hitt. „Og þessu til viðbótar að á Facebook-síðunni minni er hver einasta ferð sem ég hef farið með myndum og frásögn. Þannig hefur það verið frá 2013 og þetta er allt upp á borðum. Ég hef aldrei fengið eina einustu athugasemd frá þinginu með aksturbókina mína sem ég skila í lok hvers mánaðar, útfyllta og klára. Það dettur ekki nokkrum þingmanni í hug að nota bílinn í einkaerindum því þingið veit alveg hvað er langt fram og til baka.“

Ásmundur segir að tíðar kosningar sem hafi verið á undanförnum árum hafi kallað á aukin ferðalög. „Reglurnar eru bara þannig að þau erindi sem ég á við kjósendur sem þingmaður, það er greitt.“ Hann segir að þingið hafi greitt fyrir akstur á fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins og þegar hann hafi verið í kosningabaráttu. „Ég setti ekki þessar reglur og hef ekkert velt þessu fyrir mér. Ég gekk bara inn í þetta umhverfi og hef bara hagað mér eins og það býður upp á.“  

Hann ítrekar að þetta séu reglur sem gildi í þinginu, hann fari hundrað prósent eftir þeim og hann hafi engar athugasemdir fengið. „Þetta er allt upp á borði og þegar verið er að taka þessa umræðu verða menn að taka með inn í þetta hvernig þetta er hjá öðrum landsbyggðarþingmönnum, sem ferðast frá heimili sínu, með bíl, með flugi og fá húsnæðiskostnað greiddan.“