Hagar kaupa Olís

26.04.2017 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hagar hf., sem meðal annars reka Bónus og Hagkaup, hafa keypt Olís - Olíuverslun Íslands, og fasteignafélagið DGV ehf. Samningurinn er gerður með nokkrum fyrirvörum, meðal annars um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi allt eftir er gert ráð fyrir að gengið verði frá kaupunum undir lok þessa árs.

Í tilkynningu Haga til Kauphallar Íslands kemur fram að Olís er með 115 starfsstöðvar undir merkjum Olís, ÓB og Rekstrarlands. Fasteignafélagið DGV ehf. á um þrjú þúsund fermetra fasteign á Fiskislóð og lóð á Hellu. Heildarkaupverð Olís og DGV er rúmur níu og hálfur milljarður króna. Rúmur helmingur þess greiðist með hlutafé í Högum.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að í kaupunum felist tækifæri til sóknar og aukinnar hagkvæmni í breyttu samkeppnisumhverfi. Hann vill ekki svara því beint hvort um sé að ræða viðbrögð við áformum Costco um bensínsölu. Verslunarrisinn Costco, sem stefnir á að opna verslun sína hér á landi í lok maí, verður með bensínstöð fyrir utan verslunina. Þar verður selt eldsneyti keypt af innlendum olíufyrirtækjum.