Íslensk lög og alþjóðasáttmálar banna að vopn séu flutt til svæða þar sem þau eru notuð gegn almenningi eða í stríðsglæpum. Þrátt fyrir þetta hafa íslensk yfirvöld heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau berast til Jemens og Sýrlands. Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld.

Þegar Ban Ki Moon, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom í opinbera heimsókn 2013, var mikið úr því gert að Ísland hefði fullgilt nýjan vopnasölusáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Í honum, þá er ríkjum óheimilt að heimila flutninga á vopnum sem eru þá notuð til dæmis gegn almenningi í stríðsátökum, eru notaðir í stríðsglæpum eða sem sagt glæpi gegn mannúð,“ segir Bjarni Már Magnússon, dósent við Háskólann í Reykjavík.

En þrátt fyrir trumbusláttinn virðist alveg hafa gleymst að lesa þennan sáttmála innan stjórnkerfisins, því hann hefur verið þverbrotinn. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum heimilað flugfélaginu Atlanta að flytja vopn frá Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau eru flutt til Jemens og Sýrlands.

„Vopnin sem flutt hafa verið til Sádi-Arabíu eru ekki af þeirri gerð sem herinn þar í landi notar. Það hefði átt að kvikna á mörgum rauðum ljósum hjá öllum þeim ríkjum sem koma nálægt þessari vopnaverslun,“ segir Patrick Wilcken, vopna- og mannréttindasérfræðingur hjá Amnesty International.

2015 var þessu til viðbótar birt reglugerð, þar sem ályktun öryggisráðsins um hömlur á vopnasölu til Jemens var tekin upp, og byggt á lögum frá 2008.

Wilcken segir að fangelsisrefsing liggi við brotum á þessum lögum. „Og þau lög taka til lögaðila, íslenskra lögaðila, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Og þá til aðgerða hvar sem þeir eru. Og það varðar fangelsisrefsingu allt að sex árum í alvarlegustu brotum.

En þrátt fyrir þetta hefur ósk um vopnaflutninga íslenska flugfélagsins aldrei verið hafnað.

Sigurður Ingi Jóhannsson er ráðherra samgöngumála og ber sem slíkur ábyrgð á veitingu leyfis til vopnaflutninga. „Við höfum auðvitað ekki eftirlit á áfangastaðnum. Við erum augljóslega hvorki með her né leyniþjónustu til þess að fylgjast með neinum slíkum þáttum,“ segir hann.

Fjallað verður um vopnaflutninga og hvernig Íslendingar hafa brotið eigin lög og alþjóðasáttmála, í Kveik, strax eftir Kastljós, klukkan átta.