Samkvæmt tillögum um kaup á fyrstu fasteign, sem ríkisstjórnin kynnti í gær, er hægt að greiða niður helming 20 milljóna króna láns eftir 10 ár. Hlutfallið væri aðeins 15% ef lánið væri verðtryggt. Þetta segir Már Wolfgang Mixa stundakennari við Háskólann í Reykjavík. Hann segir nýju leiðirnar vera góða byrjun.

Már Wolfgang var gestur Morgunútvarps rásar 2 í morgun: 
„Ef að þú tekur svona samkvæmt ákveðnum forsendum varðandi verðbólgu og vexti, ef þú tekur til að mynda 20 milljóna króna lán að þá eftir 10 ár þá ertu búin að greiða niður í kringum helming lánsins að raunvirði. Það er að segja miðað við að íbúðin hafi hækkað í verði í samræmi við verðbólgu. En á verðtryggðu láni þá ertu búin að greiða niður þetta í kringum eitthvað 15% af íbúðinni, af láninu það er að segja. Þannig að það er að eiga sér stað töluvert mikil eignamyndun með þessum hætti. Það er talið að um 14 þúsund manns muni nýta sér þetta úrræði á næstu árum og þá má búast við því einmitt að eignamyndunin aukist og fasteignaverð jafnvel hækki í framhaldinu. Sérðu fram á svoleiðis langtímaafleiðingar? Það er nú bara alltaf þannig að þegar að aðgangur að lánsfé verður betri og hagstæðari þá hækkar fasteignaverð.“