Kraftur eldgossins norðan Vatnajökuls jókst á ný eftir hádegi, eftir að mjög dró úr gosinu í morgun. Það er þó talið vera mun minna en í gær.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur fór ásamt fleiri vísindamönnum að hraunsprungunni síðdegis. Hann segir að erfitt sé að meta stærð gossins og hvert framhaldið verður. Gosstrókarnir hafi hækkað töluvert síðan í hádeginu. Þá hafi þeir náð rétt upp fyrir gígbarmana en síðdegis hafi þeir aftur verið komnir upp í 30-50 metra hæð. Eldtjaldið í sprungunni sé einnig orðið tiltölulega samfellt.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug yfir gosstöðvarnar í dag. Hann segir að gosið sé enn nokkuð kröftugt þótt það hafi rénað síðan í gær. Hann telur að stærð eldgossins sé þriðjungur eða fjórðungur af því sem var í gær. Hann segir að hraunið hafi stækkað um um það bil einn ferkílómetra síðan í gær, sem passi við að hraunrennslið síðustu 19 klukkustundir hafi verið um 100 rúmmetrar á sekúndu.