Gerðu þarfir sínar við leikskóla á Egilsstöðum

13.06.2017 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Fanney Ósk Ríkharðsdóttir
„Það er rosa skemmtilegt að koma út að leika sér og útlendingar búnir að tjalda við girðinguna og farnir að gera þarfir sínar,“ segir Fanney Ósk Ríkharðsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Tjarnarskógi á Egilsstöðum.

Þegar starfsmenn fóru út með börnin í morgun að ganga í Tjarnargarðinum við hliðina á leikskólanum sáu þeir tjald ferðamanna og ekki leið að löngu þar til einhver kom út úr tjaldinu og fór að sinna morgunverkunum. Fanney segir að börnin hafi sem betur fer ekki orðið vör við aðfarirnar. „Þeir fóru inn í runna en við fullorðna fólkið gerðum okkur grein fyrir hvað var í gangi.“ Hún segir að auk leikskólabarnanna hafi krakkar á grunnskólaaldri verið í frísbígolfi í garðinum. Svo virðist sem ferðamennirnir hafi viljað spara sér að greiða fyrir pláss á tjaldsvæði bæjarins. Dæmi eru um að starfsfólk verslana í miðbæ Egilsstaða hafi séð ferðamenn gera þarfir sínar í skjóli trjágróðurs á gamla tjaldsvæðinu í miðbænum.

 „Maður er alveg kominn með nóg og upp við leikskólann er þetta ósmekklegt,“ segir Fanney. Hún tekur fram að það sé ekki á hreinu hvort það sem ferðamennirnir skildu eftir sig var á föstu eða fljótandi formi. Þeir hafi væntanlega ekki gert sér grein fyrir því að á þessum stað séu hoppukastalar settir upp á 17. júní. Starfsmenn leikskólans hafi reynt að hringja beint í lögreglustöðina á Egilsstöðum í þeirri von að viðkomandi yrðu sektaðir fyrir athæfið en ekki náð sambandi.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV