Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segist sjá eftir og skammast sín fyrir orð sem hann ritaði í skólablað 1968. Þá sagði hann að óskemmtilegt yrði að sjá „alls kyns blökku- og múlattalið tala móðurmál vort og telja sig til vorrar þjóðar.“ Geir sagði Framsókn hafa hlaupið á sig í moskumálinu.
Þetta kom fram í þættinum Hæpið sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi. Geir sagði þar orð sín frá 1968 vera óskiljanleg heimskupör. Hann sagði Framsóknarflokkinn einnig hafa hlaupið á sig í aðdraganda borgarstjórnar með útspili sínu um moskumálið.
„Eiginlega ekki hægt að útskýra þetta“
„Þetta er auðvitað bara óskiljanlegt að þetta skyldi sett á blað fyrir tæplega 50 árum. Þetta eru fáránleg ummæli, voru það þá og eru það nú. Ég náttúrulega bara skammast mín fyrir þau. Ef ég hef sært eða meitt einhvern með því, þig eða einhvern annan, þá biðst ég afsökunar á því,“ sagði Geir um orð sín í skólablaðinu og kvaðst sjá eftir því.
„Þetta er óskiljanlegt fyrir mér. Þetta eru nefnilega heimskupör. Þetta eru heimskupör í sextán ára menntaskólastrák sem birtust í fálesnu skólablaði. Og vegna þess að þetta eru heimskupör er eiginlega ekki hægt að útskýra þetta. Auðvitað var ég ekki alinn svona upp og hef ekki alið mín börn svona upp.“
Geir kvað störf sín í stjórnmálum ganga þvert gegn því sem hann hefði skrifað fyrir tæpri hálfri öld. Hann hefði til dæmis tekið þátt í að breyta lögum og bæta réttindastöðu fólks sem áður hefði verið mismunað. Geir kvaðst stoltastur af breytingunni á stjórnarskránni 1995 þegar bann var lagt við mismunun á grundvelli þjóðarháttar og fleiri þátta.
Framsókn hljóp á sig
„Ég held að Framsóknarflokkurinn hafi hlaupið á sig í því máli en þeir hafa hins vegar reynt að bjarga sér fyrir horn,“ sagði Geir um útspil Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Þá lýsti oddviti listans í Reykjavík andstöðu við að múslimum yrði úthlutað ókeypis lóð undir mosku, eins og þjóðkirkjunni undir kirkjur. Geir lýsti þeirri skoðun sinni að öll trúfélög ættu að hafa rétt
Sjálftur sagðist Geir vera þeirrar öll trúfélög eigi að fá byggja hús fyrir sínar trúarlegu athafnir. „Mér fannst gæta fordóma í þessu, því miður. Sérstaklega í því hvernig þetta var spilað áfram en ég vona að allir hafi lært sína lexíu á því.“
Aðalatriðið hvernig manneskja viðkomandi er
„Hvaða fordómar sem er eiga hvergi rétt á sér og það ber að berjast gegn þeim eins og menn geta,“ sagði Geir. „Það sem er náttúrulega aðalatriðið og allir verða að hafa í huga er að það er einstaklingurinn sjálfur sem skiptir máli, ekki hvernig hann lítur út, hvaða litarhaft hann er með, hvaða kynhneigð hann hefur eða af hvaða kynþætti eða kyni. Þetta er ekki það sem skiptir máli. Það skiptir máli hver viðkomandi er, hvaða persónu hann ber og hvernig manneskja viðkomandi er.“