Sólveig Anna Jónsdóttir sem gefur kost á sér í formannskjöri Eflingar gefur verkalýðsforystunni falleinkunn. Ingvar Vigur Halldórsson sen sækist líka eftir formannssætinu í Eflingu segir að stéttabaráttan sé í tiltölulega góðu lagi. Þessi tvö vilja verða formenn og skiluðu í dag framboðslistum vegna formannskjörs og stjórnarkjörs.
„Já ég held að ég verði að gefa henni falleinkunn. Í það minnst út frá mínum persónulegu aðstæðum á vinnumarkaði sem ómenntuð kona. Ég er búin að vera meðlimur í Eflingu frá því að ég hóf störf á leikskóla sem ófaglærður starfsmaður 2008. Ég hef ekki orðið vör við að mitt stéttarfélag setti mína hagsmuni í forgrunn. Launakjör mín eru algjörlega óásættanleg. Svo á það sama við annað fólk í sömu eða svipaðri stöðu. Þannig að ég ætla að gerast það djörf að gefa henni falleinkunn,“ segir Sólveig Anna.
Ingvar Vigur Halldórsson stefnir að því að taka við Sigurði Bessasyni núverandi formanni. Hann er með stuðning uppstillingarnefndar, stjórnar og trúnaðarmannaráðs. En tekur hann undir með Sólveigu að það sé þörf á herskárri stéttabaráttu? Eru stéttarfélögin hreinlega máttlaus?
„Nei, þau eru ekki máttlaus. Ég tel að stéttabaráttan sé í tiltölulega góðu lagi. Það sem ég stend fyrir eða minn listi er að tefla fram er traust,reynsa og þekking. Fólkið sem er með mér á listanum er fólk sem er búið að vera í verkalýðsbaráttunni mjög lengi, “ segir Ingvar Vigur.
Hlusta má að viðtalið við Sólveigu Önnu og Ingvar í spilaranum hér að ofan.