Benedikt Erlingsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Hross í oss, gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir niðurskurð í kvikmyndaiðnaðinum þegar hann veitti kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs viðtöku í ráðhúsinu í Stokkhólmi í gærkvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd hlýtur verðlaunin.

Benedikt byrjaði ræðu sína á því að þakka Friðriki Þór Friðriksson leikstjóra fyrir að taka að sér að framleiða Hross í oss, sem var fyrsta kvikmyndin sem Benedikt leikstýrir. Hann sagði að Friðrik hefði framleitt fjölda kvikmynda leikstjóra sem væru að stíga sín fyrstu spor í kvikmyndaiðnaðinum og að hann hefði átt að fá verðlaun fyrir löngu síðan fyrir það hugrekki.

Benedikt hvatti gesti hátíðarinnar til að gefa sig á tal við íslenska ráðherra í veislunni eftir verðlaunaafhendinguna og gagnrýna 42 prósenta niðurskurð stjórnvalda til íslenska kvikmyndaiðnaðarins. Sá niðurskurður hefði bæst við 30 prósenta niðurskurð eftir hrunið. Þá hvatti Benedikt hátíðargesti til að ræða við ráðherrana um sagnaarf Norðurlandanna og sagði kvikmyndirnar sem gerðar eru í dag vera sagnaarf framtíðarinnar.