Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn á spillingu og og ætluðum mútugreiðslum í namibískum sjávarútvegi, meðal annars frá Samherja.

Stundin greindi fyrst frá handtökunni og vísaði í útvarpsþátt í Namibíu. 

The Namibian segist hafa fengið handtökuna staðfesta hjá Sebastian Ndeitunga, yfirmanni namibísku lögreglunnar. Einnig hafi kaupsýslumaðurinn Ricardo Gustavo verið handtekinn en hann var samstarfsmaður James Hatuikulipi, sem er einn þeirra sem kallaðir hafa verið hákarlarnir í fréttum af starfsháttum Samherja í Namibíu. „Það er rétt að við höfum handtekið þá. Við höfum enn 48 klukkustundir til að tryggja framgang rannsóknarinnar.“

Bernhard Esau sagði af sér í síðustu viku ásamt dómsmálaráðherra landsins, Sacky Shangala.