Björgunarsveitir leita nú Birnu Brjánsdóttur við og í Hafnarfjarðarhöfn nærri athafnasvæði Atlantsolíu við Óseyrarbraut. Skópar af gerðinni Dr. Martens, sömu tegundar og Birna klæddist þegar hún hvarf, fannst þar fyrr í kvöld. Lögreglan vinnur að því að rannsaka þá nánar.

Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðarstjóri Landsbjargar á vettvangi, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir að verið sé að fínkemba svæðið. Nú sé háfjara og leit hafin frá landi. Verið er að undirbúa leit frá sjó. Þá eru tveir drónar komnir á loft sem einnig eru notaðir við leitina. 

Nokkrar björgunarsveitir eru þegar á vettvangi og minnst fimm sveitir til viðbótar hafa verið kallaðar út. Fyrr í kvöld leituðu björgunarsveitir Birnu í Urriðaholti, á og við svokallaða Flóttamannaleið. Sú leit bar ekki árangur og var henni hætt um klukkan tíu. 

Almenningur er beðinn að halda sig fjarri leitarsvæðinu til að trufla ekki leitarstörf og spilla ekki rannsóknarhagsmunum. Í fréttum útvarps klukkan tvö kom fram að björgunarsveitir væru við leit nærri Kaldárseli. Sú frétt byggði á röngum upplýsingum.