Fólki misbýður atburðarás og trúnaðarbrestur í kringum meðmæli föður forsætisráðherra með barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni, að sögn Bjartar Ólafsdóttur auðlinda- og umhverfisráðherra. Eðlilegt sé að boðað verði til kosninga.
„Það verður auðvitað hver og einn að taka ábyrgð á eigin samvisku og það er það sem við gerum,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra um orð Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að stjórnarslitin í gær hafi verið óðagot af hálfu Bjartrar framtíðar. „Sannleikurinn er sá að við áttum mjög góðan fund í gær og þarna var fólk mjög sammála um lengra yrði ekki gengið í stjórnarsamstarfinu. Fólki er misboðið yfir þessari atburðarás og yfir þeim trúnaðarbresti sem hefur átt sér stað,“ segir hún. Rætt var við Björtu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Björt segir að það hafi verið þungbært að slíta stjórnarsamstarfinu þar sem margt hafi gengið vel. „Það hefur gengið vel hjá okkur að koma okkar gildum í gegn. Þetta er stór ákvörðun, ég neita því ekkert. Það er þannig að maður þarf að eiga við sína eigin samvisku og hún leyfir þetta ekki hjá okkur í Bjartri framtíð,“ segir hún um leyndina sem hvíldi yfir því að faðir forsætisráðherra hefði veitt dæmdum barnaníðingi meðmæli.
Aðspurð hver trúnaðarbresturinn sé segir hún að þau í Bjartri framtíð hafi heyrt um meðmæli föður forsætisráðherra í fréttum í gær. „Þegar þessi púsl leggjast niður þá er myndin eitthvað skökk og ég ætla ekkert að svara fyrir það af hverju hún er skökk. Það verða aðrir að gera.“ Hún segir að flokknum hafi ekki verið treyst fyrir gögnum málsins og fjölmiðlum meinaður aðgangur að þeim. „Dómsmálaráðherra ákvað þetta væru mikilvægar upplýsingar fyrir forsætisráðherra. Það er mikil vinna fyrir höndum að útskýra það hvernig það sé ekki óeðlilegt.“
Björt segir eðlilegt að boðað verði til kosninga. Nú hefjist örugglega þreifingar og vitað sé að flokkarnir fari á stjá og reyni að setja saman stjórn. Takist það þá verði það þannig.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Aukafréttatími verður í sjónvarpi klukkan 12. Hann verður textaður og rittúlkaður á síðu 888 í textavarpi.