Fjöldi ferðamanna strand við lokaðan þjóðveg 1

12.05.2017 - 10:56
Ferðalangar strand á Hala Í Suðursveit
 Mynd: Ladislav Skála  -  Á Hala í Suðursveit
„Það er töluverð umferð hér fram og til baka,“ segir Guðmundur Vignir Steinsson en hann rekur Skaftárskála á Kirkjubæjarklaustri. Þar bíður nú nokkur fjöldi ferðamanna vegna lokunar á Þjóðvegi 1 milli Jökulsárlóns og Lómagnúps. Vegagerðin lokaði veginum vegna hvassviðris en í nótt fóru hviður í 47 metra á sekúndu.

Að vestanverðu er lokunin milli Núpsstaðar og Kálfafells en þangað er um 20 mínútna akstur frá Klaustri. Guðmundur segir að margir ferðamann leggi í óþarfa 40 mínútna akstur frá Klaustri að lokuninni og til baka. Betra hefði verið að hafa lokunina við Klaustur. Í Skaftárskála bíði nú 10-15 manns og fleiri séu að skoða sig um á Klaustri. Sumir skoði Systrafoss og svokallað Kirkjugólf en það eru flatir steinar á jörðinni sem líkjast steingólfi. Hann segir að framan af morgni hafi veður verið ágætt á Klaustri en þegar fréttastofa ræddi við upp úr klukkan 10 var farið að hvessa.

Austan við lokunina er Hali í Suðursveit og þar er starfrækt setur um Þórberg Þórðarson rithöfund. Fjölnir Torfason bóndi á Hala segir að 50-60 manns bíði í Þórbergssetri. „Fólk situr bara og talar, les og spilar. Það er líka komin mikil rigning og þá veit fólk að það er óðs manns æði að fara af stað,“ segir Fjölnir. Erfiðara hafi verið að halda fólki þegar veginum var lokað í fyrradag en þá var veður ekki eins vont á Hala þó það væri mjög slæmt vestar. Í Norðaustanátt geti veður verið mjög misjafnt milli byggðarlaga á Suðurlandi. Vegagerðin gerir ráð fyrir að vegurinn verði lokaður fram yfir hádegi. 

Þá er búist við mikilli úrkomu á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag og fram til morguns og Veðurstofan varar við hættu á að aurskriður falli.

Myndin sýnir ferðalanga sem bíða á Þórbergssetri á Hala í Suðursveit.

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV