Öll hótel á höfuðborgarsvæðinu eru uppbókuð og ferðamenn sem komust ekki frá landinu vegna veðurs hafa lent í vandræðum með að fá gistingu. Margir létu veðrið þó ekki aftra sér frá því að skoða höfuðborgina í dag.
Þar sem öllu flugi frá Keflavíkurflugvelli var aflýst eftir hádegi í dag, þurftu fjölmargir ferðamenn að eyða að minnsta kosti einni nótt til viðbótar á Íslandi. En á höfuðborgarsvæðinu eru nokkurn veginn öll hótel uppbókuð.
„Það er bara allt fullt hjá okkur eins og á öllum öðrum Icelandair hótelum og svo er það þannig þegar veðrið er eins og það er í dag, þá verður visst óvissuástand yfir daginn,“ segir Birgir Guðmundsson, hótelstjóri á Reykjavík Marina. „Fólk sem átti að fara í dag kemst ekki af landi brott og þarf að leysa sín mál. Og eins og staðan er núna erum við bara að finna út úr því hverjir það eru sem eru kannski ekki að koma í staðinn þar sem það er búið að aflýsa komum til landsins. Þannig að eins og ég segi, það er visst óvissuástand yfir miðjan daginn en þetta leysist oftast þegar líður á daginn,“ segir Birgir.
Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá viðtöl við ferðamenn í óveðrinu í Reykjavík í dag.