Um 150 björgunarsveitarmenn og sex lögreglumenn eru við Gullfoss, þar sem verið er að leita manns sem sást til í Hvítá við Gullfoss.

Fólk á tveimur stöðum sá manninn fljóta niður fossinn. Adolf Arnarson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að engar upplýsingar hafi borist frá ferðafélögum eða öðrum sem sakni mannsins. „Við ætlum að gera það sem við eigum að gera. Og leita,“ segir Adolf. Ekki hefur verið ákveðið hve lengi leit verður haldið áfram.

„Við erum að vinna, hringja og skoða hlutina hérna í nágrenninu. Hvað við finnum, það kemur svo í ljós“, segir Adolf. „Við vitum ekkert hvaða persóna þetta var. Við vitum bara ekki neitt.“

Tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar, sem tekið hafa þátt í leitinni við Gullfoss, var í kvöld flogið til Reykjavíkur að taka eldsneyti. Önnur þeirra hélt aftur að Gullfossi og er stefnt að því að hún verði til aðstoðar við leit framundir myrkur.