Eldsneyti úr útblæstri

27.02.2012 - 13:24
Mynd með færslu
Rétt við Bláa lónið í Svartsengi á Reykjanesskaganum er risin verksmiðja sem vinnur eldsneyti úr útblæstri jarðvarmavers HS orku. Um 85% þess sem fer út um strompana á jarðvarmaverinu er koltvísýringur, önnur efni eru til að mynda brennisteinsvetni og vatnsgufa.

Verksmiðjan, sem er í eigu Carbon Recycling International vinnur koltvísýringinn úr gufunni og með rafgreiningu er vatnið klofið í súrefni og vetni. Svo eru efnahvatar notaðir til að breyta koltvísýringi og vetni í metanól. Metanól er hægt að nota sem eldsneyti og í efnaiðnaði. Það má blanda því í takmörkuðu magni við sérstakt bensín og nota á hefðbundna bíla. En vonir manna hjá CRI standa til þess að fjölorkubílum fjölgi og að hægt verði að nota allt að 85% metanól á móti 15% bensín á tanka bílanna.
CRI er líka að prófa sig áfram með að framleiða metanól úr sorpi. Þá fæst vetnið úr sorpinu, og þar með sparast raforka, sem þarf að nýta í ferlið við orkuverið. 
CRI stefnir að því að auka umsvif sín og reisa verksmiðju við Kröfluvirkjun.

Heimasíða Carbon Recycling International.

Vertu vinur Landans á Facebook