Ekki komið leyfi fyrir tónlistarhátíð The xx

10.05.2017 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia
Umsókn um leyfi til tónleikahalds sem hljómsveitin The xx hugðist halda á landinu í kringum Skógafoss var hafnað á sameiginlegum fundi héraðsnefnda Rangæinga og Vestur-Skaftafells-sýslu í vikunni að sögn oddvita héraðsnefndar Rangæinga.

„Já það var samhljóða afstaða allra meðlima að hafna henni í núverandi mynd,“ sagði Egill Sigurðsson, oddviti héraðsnefndar Rangæinga, um umsóknina. Hann sagði helstu ástæðu þess að héraðsnefndirnar teldu að þriggja daga tónlistarhátíð færi ekki vel saman við venjulegan ferðamannastraum, þá gæti þurft að rukka alla fyrir aðgang að svæðinu, sem ekki væri áhugi fyrir. Ef breytingar yrðu gerðar á skipulagi útilokað hann ekki að héraðsnefndirnar myndu gefa leyfi fyrir hátíðinni. „Ef menn koma með einhverjar nýjar hugmyndir, þá bara förum við bara yfir þær.“

Friðrik Ólafsson, sá sem hefur haft veg og vanda af skipulagninu hátíðarinnar í samstarfi við hljómsveitina The xx, segir að sér hafi ekki borist nein höfnun á leyfi. Friðrik hefur undanfarin ár verið einn af helstu skipuleggjendum Secret Solstice hátíðarinnar. „Á þessu stigi er mjög eðlilegt að það séu ekki öll leyfi komin. Við uppfyllum öll skilyrði sem hafa verið sett af hagsmunaaðilum, sem koma að hátíðinni líkt og við höfum gert með Solstice.“ segir Friðrik. „Hluti af aðgangseyri hátíðarinnar verður settur í sjóð til að bæta aðstöðuna í kringum fossinn. Þetta er frábær auglýsing fyrir Ísland og Skógafoss,“ segir Friðrik og bætir við að enginn vafi leiki á því að hátíðin verði haldin.