Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að búið sé að skoða einkavæðingu bankanna margoft og að ekki sé aðkallandi að rannsaka hana. Hann útiloki þó ekki að einstakir þættir verði rannsakaðir ef góð ástæða er til.

Bjarni segir atburðarrásina sem lýst er í skýrslunni dapurlega. „Það er greinilegt að þarna hefur verið sett á svið eitthvert leikrit til þess að láta líta svo út að menn væru í sterkari stöðu og með meira bakland og sterkari fjárfesta að baki þessum kaupum.“

Bjarni segir að skoða þurfi hvernig hægt sé að fyrirbyggja að svona hlutir geti endurtekið sig og draga lærdóm af því sem þarna gerðist, til dæmis þegar Íslandsbanki verði seldur. „Sérstaklega þegar hlutir eru að fara úr ríkiseigu til einkaaðila þarf að skoða ofan í saumana við hverja er verið að eiga. En við skulum sjá hverju fram vindur í því, það er ekki beint á dagskrá um næstu helgi að selja Íslandsbanka.“

Bjarni telur ekki ástæðu til að fara í víðtækari rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Viðtal við Bjarna má sjá í spilaranum hér að ofan.