Bygging Melaskóla var mjög gagnrýnd á sínum tíma enda var hún dýr. Vandað var til verka og hefur húsið því elst vel, eins og mörg önnur hús eftir Einar Sveinsson. Byggingin þótti svo glæsileg að tekið var á móti kóngafólki í anddyri skólans.

Hér fyrir ofan má sjá brot úr þriðja þætti Steinsteypualdarinnar, sem er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20.10.

„Hún var mjög dýr og mikið gagnrýnd. En reynslan hefur sýnt að hún hefur enst betur en flestar aðrar skólabyggingar. Það á reyndar við um flest hús Einars, þau voru svo vönduð í efnisvali og öllum frágangi að það hefur varla þurft að halda þeim við. Sem dæmi má nefna að gólfdúkarnir hérna, sem hafa verið í nærri 70 ár, eru upprunalegir,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt.

Skólinn var allur sá glæsilegasti að innan, með sterkum litum og listaverk eftir listamenn á borð við Ásmund Sveinsson og Barböru Árnason. „Þetta var eiginlega móttökuhús Reykjavíkur, áður en Höfði kom til sögunnar. Hér voru kóngaveislur, og öllu fyrirfólki sem borgin bauð upp í veislur, þeim var boðið hingað í anddyri Melaskólans.“

Eitt það merkilegasta við húsið er að það er ekki kassalaga, heldur sveigt. Aðalálman er bogadregin í samræmi við torgið á móti. „Þetta er ekki auðvelt að gera en þetta gerir svo mikið fyrir innra rýmið í húsinu. Gangarnir verða svo miklu fallegri og manneskjulegri. Þetta er eitthvað sem Einars Sveinsson skrifaði um og hafði mikla tilfinningu fyrir, hvernig á að búa til fallegt innrými,“ segir Pétur.