Gáfurnar fara til spillis. Þetta er yfirskrift forsíðuumfjöllunar nýjasta tölublaðs breska tímaritsins Economist um einhverfu. Sameinuðu þjóðirnar áætla að einungis fimmtungur þeirra sem falla einhvers staðar á hið breiða einhverfuróf sé í vinnu. Samt eru margir einhverfir vel færir um að sinna hinum ýmsu störfum. Hvað veldur?
Framúrskarandi hæfni í samskiptum
Krafan um framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum, sem oft er tilgreind í atvinnuauglýsingum, dregur oft kjarkinn úr einhverfum. Atvinnuviðtal getur sömuleiðis reynst þeim erfiður hjalli.
Góð einbeiting og auga fyrir smáatriðum
Einhverfa er fjölbreytt röskun og því erfitt að alhæfa um fólk á rófinu. Samkvæmt Economist hafa þó margir á einhverfurófi yfirburðahæfni þegar kemur að því að greina mynstur eða frávik, þeir geta að sögn blaðamanna því verið mikill fengur fyrir hugbúnaðarfyrirtæki. Þá kemur fram að einhverfir eigi oft auðvelt með að veita þeim verkefnum sem fyrir liggja óskipta athygli og að vinna sem krefst nákvæmni liggi oft vel fyrir þeim. Í greininni segir að einhverfir leggi oft mikið upp úr skipulagi og vilji hafa hlutina í föstum skorðum, þá eigi þeir oft erfitt með að þola áreiti. Taka þurfi sérstakt tillit til þessa á vinnustaðnum.
Vandinn til staðar hér
Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna, segir að ekki hafi verið kannað hversu hátt hlutfall einhverfra hér á landi fær ekki vinnu við hæfi en segir ljóst að vandinn sé til staðar hér.
„Ég er ekki í neinum vafa um að svo sé. Ég þekki fullt af fólki sem gæti hæglega verið á vinnumarkaði ef aðstæður væru fyrir hendi. Það er þörf á fleiri hlutastörfum og það þarf að efla úrræði eins og Atvinnu með stuðningi og Specialisterne, þá væri hægt að koma miklu fleirum inn á vinnumarkað.“
Þá þurfi að efla skilning á einhverfu meðal atvinnurekenda. Þá segir hún að einhverfir hafi oft minni starfsorku vegna þess álags sem fylgir því að þurfa sífellt að vera á tánum, að leggja sig fram við að lesa í umhverfi sitt, meðtaka og skilja.
Þekkir einangrunina af eigin raun
Atvinna með stuðningi er úrræði á vegum Vinnumálastofnunar en stofnunin tók við atvinnumálum fatlaðs fólks frá sveitarfélögunum um áramót. Specialisterne á Íslandi eru félagasamtök sem vinna að því að efla atvinnuþátttöku einhverfra. Kjartan Orri Ragnarsson er einn þeirra sem tekur þátt í starfi samtakanna.
„Mér finnst mjög gott að vera hérna, ég kem hingað til að fá félagsskap, það er gott að vera innan um fólk hvort sem ég er á netinu eða ekki. Mikilvægast er að einangrast ekki. Ég veit hvernig það er.“
Kjartan hefur verið í vinnu en missti hana í fyrra.
„Ég vonast til að fá aftur nýja vinnu og væri til í að vinna við tölvur, ég er á tölvunámskeiði,“ segir hann.
Hafa fjarlægst móðursamtökin
Samtökin voru stofnuð árið 2011, að danskri fyrirmynd, en hafa síðastliðin ár fjarlægst móðursamtökin nokkuð að sögn Bjarna Torfa Álfþórssonar, framkvæmdastjóra þeirra.
„Þeir lögðu upp með að þetta væri fólk úr tölvubransanum, prófarar eða forritarar og þannig var hugmyndin seld til okkar líka og menn trúðu á það þegar þeir fóru af stað. Bissnessmódelið fyrir Specialisterne á Íslandi var smíðað þannig í upphafi að þetta yrði fyrirtæki sem gæti staðið á eigin fótum og við gætum selt út okkar fólk eins og við værum bara í ráðgjafarsölu en veruleikinn er annar hér og við vorum fljót að sjá að þetta yrði ekki. Allir sem hafa farið í vinnu frá okkur hafa bara þegið laun, unnið fyrir sinn vasa. Það kemur ekkert til okkar. Okkar gleði felst í því að einhver fái vinnu en í Danmörku er þetta eins og ráðgjafarfyrirtæki sem selur frá sér ráðgjafa og þeir hafa af því verulegar tekjur.“
Rekast á hindranir þrátt fyrir hæfni
Skjólstæðingar samtakanna kunna margir ýmislegt og sumir hafa lokið háskólanámi en samt rekast þeir á hindranir þegar kemur að því að halda út á vinnumarkaðinn.
„Ég held við lesum enga atvinnuauglýsingu án þess að þar komi fram, neðarlega í auglýsingunni, að viðkomandi umsækjandi þurfi yfirburðahæfni í mannlegum samskiptum og þurfi að geta unnið í hóp. Það er þannig með okkar skjólstæðinga langflesta að þetta er akkúrat það sem þeir eru síst góðir í, það hræðir þá frá því að sækja um störfin í fyrsta lagi og að komast í atvinnuviðtal. Þeir komast ekki yfir fyrsta þröskuldinn. Það er oft nóg að hjálpa þeim yfir þennan fræga þröskuld. Það kemur þá á daginn að auðvitað geta þeir sinnt sömu verkum og aðrir en þeir eiga erfiðara með að koma því frá sér hvað þeir eru öflugir.“
Sex prósent ágengt í atvinnuleit
Bandarísk rannsókn sýndi að einungis 6% einhverfra ungmenna varð ágengt í atvinnuleit sinni en 87% þeirra sem fengu aðstoð fengu starf.
Þriðjungur skjólstæðinga komist í vinnu
Specialisterne fá styrk frá velferðarráðuneytinu og hlutu fjórar milljónir á fjárveitingum þessa árs. Þau fjármagna sig líka með þjónustusamningum sem þau hafa gert við Vinnumálastofnun, Hafnafjarðarbæ, Reykjavíkurborg og Virk. Þau hafa frá stofnun aðstoðað um 90 einstaklinga, þar af hafa 34 fengið vinnu og níu farið í nám. Bjarni fullyrðir að langflestum hafi gengið vel að fóta sig á vinnumarkaði og segir líf þeirra hafa tekið stakkaskiptum.
„Þeirra hversdagur var eins og sunnudagar hjá mörgum öðrum, þeir þurftu ekki að vakna til eins né neins, enginn gerði kröfur til þeirra. Nú er þetta fólk sem þarf að fara á fætur, mæta í vinnu. Það er gert ráð fyrir þeim og þau hafa ábyrgð sem þau þurfa að standa undir. Menn eru komnir með höfuðið úr bringunni og upp og kassinn svolítið út. Fyrir einstaklinginn er það rosalega mikils virði að finna að hann er einhvers metinn.“
Samtökin láta minnisblað fylgja hverjum og einum sem fer frá þeim en þar kemur meðal annars fram hvað það er helst í fari einstaklingsins sem taka þarf sérstakt tillit til.
Þurfa að sanna sig
Áður en starfsmenn samtakanna hefja leit að vinnu fyrir skjólstæðinga þurfa þeir að hafa sýnt fram á þeir geti mætt í húsnæði samtakanna, fimm daga vikunnar, fjóra tíma í senn. Starfsmenn samtakanna kortleggja grunnþekkingu þeirra, svo sem á sviði tölvunotkunar. Fólk getur sömuleiðis spreytt sig á ýmsu námsefni og handavinnu. Þá standa samtökin fyrir ferðum í sund, á kaffihús og á listasöfn.
„Við höfum aldrei beðið um starf fyrir einn eða neinn sem við vorum ekki viss um að viðkomandi gæti sinnt og staðið sig, við höfum sagt sem svo að sá sem mætir ekki 100% hjá okkur, við biðjum ekki um vinnu fyrir hann. Starfsmaður sem mætir ekki til vinnu er ekki góður, hversu öflugur sem hann er. Þetta er fyrsta forsendan fyrir að opna atvinnutækifæri fyrir einstaklingana.“
Störfin sem einhverfir hafa landað fyrir tilstuðlan samtakanna eru af ýmsum toga; tölvuviðgerðir, skönnunarverkefni, aðstoðarmenn dýralæknis, starfsmenn á veitingastað og svo framvegis.
Eimir eftir af fordómum
Bjarni segir að oftast séu fyritæki jákvæð, þegar leitað sé til þeirra. Í það minnsta jákvæðari en fyrir fimm árum, þegar samtökin voru að byrja. Enn eimi þó eftir af fáfræði og fordómum.
„Þegar maður sendir pósta út, og maður sendir þá gjarnan á framkvæmdastjóra eða forstjóra, þá nánast undantekningalaust koma jákvæð svör, menn taka jákvætt í verkefnið og fyrirspurninga og þykir jafnvel vænt um að leitað sé til þeirra. En svo er það þyngra þegar kemur að framkvæmdinni, að fólkið sem þarf að vinna með okkar skjólstæðingum niðri á gólfinu að þar er kannski ákveðinn ótti við að viðkomandi sé ekki nógu öflugur, geti ekki skilið allt sem á að gera og standist ekki væntingar.“
Byrja á prufuvöktum
Samtökin hafa haft það fyrir reglu hinn einhverfi fái að taka prufuvaktir í nokkra daga áður en gengið er frá ráðningu, það sé sanngjarnt gagnvart bæði vinnuveitanda og skjólstæðingi.
„Okkur getur náttúrulega orðið á í okkar mati á því hvað einstaklingurinn getur eða getur ekki,“ segir Bjarni.
Economist leggur til aðra leið, að vinnuveitendur bjóði einhverfum umsækjendum að gangast undir hæfnispróf í stað atvinnuviðtals. Í umfjöllun Economist kemur fram að tap samfélagsins, vegna einhverfs fólks sem ekki fær vinnu, sé gífurlegt. Fram kemur að með því að greina röskunina sem fyrst og veita einhverfum aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn væri hægt að gjörbreyta aðstæðum ótal einstaklinga á rófinu, draga úr bótagreiðslum og efla hagvöxt.
Ætti ekki að vera markmið að fækka öryrkjum
Sigrún Birgisdóttir hjá Einhverfusamtökunum telur að nokkuð hátt hlutfall fólks sem fengið hefur einhverfugreiningu sé á örorkulífeyri.
„Það er náttúrulega ekki sjálfgefið að maður sé öryrki þó maður sé einhverfur en margir einhverfir eru með þroskahömlun, flogaveiki, geðraskanir og ýmislegt annað sem orsakar örorkuna en einhverfan sjálf er ekki orsök.“
Hún telur mikilvægt að efla tækifæri einhverfra á vinnumarkaði en ekki með það að markmiði að fækka öryrkjum.
„Mér finnst það ekki eiga að vera markmið, ég vil bara aukna virkni, aukna þátttöku og lífshamingju. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“