Ég skapa þess vegna er ég er. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar, heitir ný bók um skáldskap Þórberg Þórðarsonar. Áhugi á Þórbergi sem höfundi og verkum hans hefur aukist stöðugt á síðustu áratugum. Líklega ekki síst vegna tveggja ævisagna um hann. Annars vegar á tveimur bókum eftir Pétur Gunnarsson og hins vegar ásamt öðru skáldi á einni bók eftir Halldór Guðmundsson. Þetta eru bækurnar Í fátæktarlandi og Í forheimskunnarlandi eftir Pétur og Skáldalíf Halldórs um Gunnar Gunnarsson og Þórberg.

Nefndar bækur mætti allar kalla ævisögur Þórbergs Þórðarsonar. Bók Soffíu Ég skapa þess vegna er ég byggir hins vegar á rannsóknum hennar til margra ára á verkum Þórbergs, sérstöðu þeirra í íslenskri bókmenntasögu og tengslum við alþjóðlega bókmenntasögu. 

Soffía gerir einnig grein fyrir því hversu langt á undan sinni samtíð Þórbergur var en aðspurður í blaðaviðtali á sjöunda áratug síðustu aldar hvort hann væri  „móderne“ svaraði Þórbergur á þá leið að líklega væri hann frekar eins og eins og menn yrðu eftir næstu aldamót.  Það er að segja  „póstmódern“. 

Þessa forspá Þórbergs má til sanns vegar færa en stærstur hluti heildarverks hans fjallar um hann sjálfan með skáldævisögulegum hætti sem einmitt núna eru einkar áberandi  „bókmenntagervi“, eins og Soffía Auður vill kalla það, bæði hér á landi og annars staðar. 

Þótt mikið hafi verið skrifað um Þórberg í gegnum tíðina þá kom Soffíu Auði ýmislegt á óvart í rannsókninni, sem tók ekki aðeins til næfellt allra verka Þórbergs sem og bréfasafns hans og annarra gagna sem varðveitt eru í Landsbókasafni. Soffía kynnit sér einnig fjölmörg þeirra verka sem gera má ráð fyrir að Þórbergur hafi lesið og orðið fyrir áhrifum af á sínum tíma.