Eftirspurn meiri en framboð á húsnæðismarkaði

22.11.2016 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Eftirspurn er meiri á húsnæðismarkaði en framboð segir Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. Húsnæðisverð fer því hækkandi sem gerir ungu fólki erfitt að eignast sína fyrstu íbúð.

Viðbótarlífeyrissparnaðurinn hjálpar verulega til

Innborgun af viðbótarlífeyrissparnaði, lægri vextir og fjölbreyttari lánamöguleikar vega þó að hluta til upp á móti. Gunnar, sem var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2,  segir alltaf hafa verið erfitt að eignast húsnæði hér á landi. Lög sem taka gildi 1. júlí á næsta ári gera fólki kleift að leggja skattlaust í 10 ár inn á húsnæðiskaup af viðbótarlífeyrissparnaði. Gunnar segir þetta hjálpa mikið til, en það hafi alltaf verið erfitt að eignast húsnæði hér á landi. 

Vextir sögulega lágir, en raunverð hátt

„Það sem er erfiðara nú en áður er að raunverð fasteigna hefur hækkað. Ef við lítum síðustu áratugi aftur í tímann þá hefur fasteignaverð verið að hækka umfram bæði verðlag og laun á liðnum árum og að því leytinu til er erfiðara að eignast húsnæði.  Það sem kemur á móti er að vaxtakostnaður. Þó að vaxtakostnaður sé enn töluvert hærri hér en í nágrannalöndunum þá eru þeir sögulega lágir, að minnsta kosti ef við lítum aftur til ársins 1980 þegar verðtryggingin var tekin upp. Það ásamt auknu aðgengi að lánsfé gerir það auðveldara fyrir fólk að eignast húsnæði. En það hefur alltaf verið erfitt að eignast húsnæði. Hver og einn þarf að gefa sér tíma og skipuleggja fjármálin. það er það sem skiptir mestu máli" segir Gunnar Baldvinsson.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV