Björk vinnur fyrstu verðlaun á Cannes Lions

Sýndarveruleiki
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Tækni og vísindi
Mynd með færslu
 Mynd: ANALOG, Björk  -  Björk Digital

Björk vinnur fyrstu verðlaun á Cannes Lions

Sýndarveruleiki
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Tækni og vísindi
Mynd með færslu
29.06.2017 - 08:19.Nína Richter
Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir vann til fyrstu verðlauna á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni Cannes Lions fyrir sýndarveruleikamyndbandið Notget, í flokknum „stafræn iðn“. Myndbandið er nýjasta viðbótin við sýninguna Björk Digital sem sett hefur verið upp víðsvegar um heim.

Cannes Lions International Festival of Creativity er alþjóðleg verðlaunahátíð þar sem ýmsar skapandi greinar mæta stafrænum miðlum og auglýsingageiranum. Er hátíðin sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og haldin í júní ár hvert. Hátíðin stendur í sjö daga og eru þáttakendur frá fleiri en 90 löndum. Lion verðlaunin eru sömuleiðis ein virtustu auglýsingaverðlaun heims. 

Sýndarveruleiki mætir tónheimi

Sýningin Björk Digital eða Stafrænn heimur Bjarkar, er sýndarveruleikaverkefni sem vakið hefur mikla athygli á heimsvísu. Nýjasta tölvutækni og tónlist Bjarkar mætast þar í nýstárlegu verkefni. Sýningin býður gestum að njóta hljóðheims Bjarkar sem unninn hefur verið í samvinnu við heimsins framsæknustu leikstjóra og forritara á sviði sýndarveruleika. Platan Vulnicura er einskonar grunnur að sýningunni, þar sem nýjir miðlar eru kannaðir á spennandi hátt. 

Töfrandi flutningur

Myndbandið sýnir Björk sem stafræna veru í myrkum heimi, og flytur veran töfrandi flutning á laginu í veruleika sem áhorfandinn sekkur inn í. Leikstjórar myndbandsins eru Warren Du Preez og Nick Thornton Jones, og myndataka í höndum Andy Serkis. Er verkefnið framleitt af ANALOG og Andrew Melchior. Listræn stjórn og grímur eru í höndum Bjarkar og listamannsins James Merry. Arvid Kiklasson og Matt Chandler eru skrifaðir fyrir sýndarveruleikaþætti verkefnisins.

Hér má sjá tvívíða útgáfu af myndbandinu.