Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ákveða verði kjördag sem fyrst. Þetta sagði Bjarni á tröppunum við Bessastaði við upphaf ríkisráðsfundar. Orð Bjarna ganga þvert á það sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á dögunum og kvað ómögulegt að ákveða kjördag nú því þá gæti stjórnarandstaðan beitt málþófi.
„Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og ganga svo til kosninga. Ég sé ekki neitt hafa breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að við kjósum seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi,“ sagði Bjarni laust fyrir klukkan ellefu.
Mikilvægt að ekki sé hringlandaháttur
Bjarni sagði að sér þætti skipta máli að það yrði ekki mikill hringlandaháttur með kosningar. Hann sagðist leggja áherslu á að standa við þessi fyrirheit en einnig að starfsfriður yrði um að ljúka verkefnum haustsins. „Það gekk vel í vor. Eins og forsætisráðherra hefur bent á var þingið starfsamt eftir að við komumst að þessari niðurstöðu.“
Aðspurður hvort það sé enginn efi í hans huga að kosið verði í haust svaraði Bjarni: „Ég veit ekki hversu oft ég á að svara þessari spurningu þannig að menn heyri það sem ég er að segja. Þetta er bara svona: Þetta stjórnarsamstarf var endurnýjað á þessum forsendum og það hafa engar forsendur breyst.“
Sigmundur Davíð hefur lýst annarri skoðun á því hvenær skuli kosið en Bjarni gerði í dag. Hann hefur sagt ótímabært að ákveða kjördag og verið hlynntur því að kjósa í vor. „Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt fyrir mér að hann tefli fram þessu sjónarhorni. Það má alveg segja að það séu gild rök fyrir því að ríkisstjórnin eigi að starfa út kjörtímabilið. En það komu upp aðstæður og við brugðumst við þeim með þessum hætti. Það hefur ekkert breyst í neinum forsendum hvað það snertir," sagði Bjarni og vísaði til þess að áður hefði kjörtímabilið verið stytt, svo sem 2009 og þá hefði Framsóknarflokkurinn stutt styttingu kjörtímabilsins.