Beðið um rekstraraðhald í stað framtíðarsýnar

17.06.2016 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: ÞÓL  -  RÚV
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans, gagnrýndi stjórnvöld í ræðu sinni við útskrift úr skólanum í dag fyrir að fara einungis fram á aðhaldsaðgerðir eða niðurskurð í stað þess að inna hana eftir listrænum markmiðum eða þróun skólastarfsins. Listnemar þurfi einir háskólanema að greiða skólagjöld hér á landi og síðan sé ætlast til þess að þeir vinni ódýrt eða ókeypis í menningarlífinu.

140 útskrifuðust frá skólanum í dag. 

Í ræðu sinni sagði rektor að naum fjárframlög til háskólastigsins á næstu fimm árum og hugmyndir um breytt fyrirkomulag námslána sýni að skammtímasjónarmið stýri för stjórnvalda. Á milli 15 til 20 þúsund manns starfi í dag við skapandi greinar og stuðli að margvíslegum afleiddum verkefnum sem aðrar atvinnugreinar byggi sína afkomu á, til dæmis ferðaþjónustan. Það skjóti því skökku við að Listaháskólinn skuli vera eini háskólinn á Íslandi sem búi við „fullkomlega óviðunandi húsnæði og mesta aðstöðuleysi íslenskra háskóla hvað flesta tæknilega innviði og aðstöðu varðar“.

Mætir fálæti og tómlæti hjá stjórnvöldum

Fríða segist í ræðunni hafa undanfarin þrjú ár sín í starfi rektors hafa ítekað reynt að hvetja stjórnvöld til þess að taka afstöðu til vandans og móta stefnu í samráði við stjórnendum skólans, án nokkurs árangurs eða haldbærra svara. „Áskorunum og tillögum vegna aðstöðuleysisins hefur ekki einungis verið mætt af fálæti heldur beinlínis tómlæti."

Þrátt fyrir umfangsmikið fræðasvið og brýn verkefni á sviði rannsókna, ekki síst á menningararfleifðinni, „þar sem ástandið er í sumum tilvikum svo alvarlegt að ómetanleg verðmæti gætu endanlega glatast ef ekkert er að gert, er Listaháskóli Íslands einn skóla með einungis 8 prósenta framlag til rannsókna af þeim fjármunum sem ríkið ráðstafar til rekstrarins. Aðrir skólar fá að minnsta kosti tvöfalt meira og upp í allt að sex sinnum meira til þess að sinna sínum rannsóknum.“ 

Nauðbeygðir til að greiða skólagjöld

Í ræðunni spyr rektor hversvegna listnemar skuli vera nauðbeygðir til að kosta meiru til en aðrir við menntun sína og þurfa að fjármagna menntun sína með skólagjöldum þegar þeir sem fari aðrar námsleiðir þurfi þess ekki. „Og að þegar þeir útskrifast, skuli þeir sömu og sköpuðu þeim þetta dýra námsumhverfi jafnvel ætlast til þess að þeir vinni ókeypis eða fyrir lítið fé eins og víða viðgengst í menningarlífinu." Sú hugsun að skapandi fólk geti gert hvað sem er, fyrir lítið sem ekkert, sé einnig byggð inn í rekstarmódel opinberra safna, sýningarsala og listahátíða af öllu tagi.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV