Að minnsta kosti tveir smábátar hafa sokkið í veðurofsanum í Reykjavíkurhöfn í nótt. Smábátnum Stormi, sem losnaði frá bryggju fyrr í kvöld, var hins vegar bjargað.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig báturinn Sæmundur Fróði er að því kominn að sökkva. Hann sökk svo síðar í nótt, ásamt öðrum báti. Oddur Hallgrímsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sagði að ómögulegt hafi verið að reyna að bjarga bátnum.
Fréttastofa RÚV fylgdi björgunarsveitarmönnum eftir í nótt. Á gistiheimili á Grensásvegi brotnuðu nokkrar rúður. Björgunarsveitarmenn sögðu að einfalt glerið í gluggunum hefði ekki þolað rokið. Og við Háaleitisbraut lét strætóskýli undan veðurofsanum. Ragnheiður Guðjónsdóttir og hennar fólk hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar brugðust skjótt við og tryggðu að skýlið skapaði ekki frekari hættu.
Í fjölbýlishúsi í Kópavoginum fór svo rúða úr í heilu lagi. Hjónin Rafn Vigfússon og Karen Gestsdóttir kipptu sér þó lítið upp við ósköpin.