Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir Ólaf Ragnar Grímsson hafa orðið að gera embættið pólitískara vegna sérstakra aðstæðna. Það sé ekki fordæmisgefandi fyrir þann sem taki við embættinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir framgöngu Ólafs í Icesave-málinu standa upp úr á ferli hans.
„Þetta er tiltölulega afdráttarlaus yfirlýsing að þessu sinni þannig að það má gera ráð fyrir að það verði kjörinn nýr forseti í sumar,“ segir Sigmundur Davíð um ávarp Ólafs Ragnars í dag.
Hann segir Ólaf Ragnar hafa haft mikil áhrif á mikilvæg mál fyrir þjóðina, til dæmis í norðurslóðamálum. Hann tekur undir að embættið hafi orðið pólitískara í tíð Ólafs Ragnars. „Það var í rauninni nauðsynlegt, en það voru mjög sérstakar aðstæður eins og hann útskýrði sjálfur, svoleiðis að það er ekkert sjálfgefið að með þessu sé verið að setja fordæmi sem haldi áfram í sömu átt, að menn haldi áfram að gera forsetaembættið pólitískt.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ákvörðunina sögulega, þar sem löngum forsetaferli sé að ljúka á árinu. „Maður var svo sem ekki viss hvaða niðurstaða kæmi en ég get samt ekki sagt að þetta hafi komið mér mikið á óvart.“
„Það sem mér finnst standa upp úr, og það er ekki bara vegna þess að það eru tiltölulega nýlegir atburðir, en það er það þegar Icesave-málið rataði til þjóðarinnar og að færa þjóðinni þennan rétt að leiða málið til lykta, það hlýtur að standa upp úr vegna þess hversu miklir hagsmunir voru þar undir,“ segir Bjarni Benediktsson.