Hve mikils virði eru auðlindir Íslands? Þessa spurningu hefur Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur hjá Hægfræðistofnun HÍ glímt við undanfarið. Þá er átt við auðlindir í almannaeigu og Sigurður hefur einkum beint sjónum að fiskimiðunum og jarðhitanum.
„Þær auðlindir sem skýrasti verðmiðinn er á, það eru þessar tvær; fiskiauðlindin og jarðhitinn. Þetta er auður sem nemur nokkrum milljónum á hvert mannsbarn,“ segir Sigðurður og bendir á að virði annara auðlinda, eins og fallvatna og víðernis, sé nokkuð óljósara.
Stöndum betur en nágrannaþjóðir
Verðmæti fiskveiðiauðlindarinnar má meta út frá kvótaverði, en virði jarðhitans hefur hann áætlað fyrst og fremst með því að bera saman húshitunarkostnað með hitaveitu annars vegar, og öðrum orkugjöfum hins vegar. Ekki er reynt að meta virði út frá áætlunum um jarðhitavirkjanir síðar meir, frekar skoðað út frá nýtingunni eins og hún er.
Sigurður segir Íslendinga standa betur en margar nágrannaþjóðir hvað auðlindaeign varðar, að líkindum eigi hver Íslendingur nokkurra milljóna virði í auðlindum eins og staðan er nú um stundir.
Sigurður Jóhannesson flytur erindi á fundi Landverndar og fleiri aðila, um auðlindir Íslands laugardaginn 11. apríl. Hann sagði frá verkefninu í Samfélaginu á Rás 1.