Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, segir að ástandinu innan flokksins sé ekki viðbjargandi og þess vegna hafi hann sagt skilið við flokkinn. Hann segir að sumum í flokknum hafi þótt öllu til fórnandi til að losna við sig, þar á meðal að fórna fylgi Framsóknarflokksins í öðrum kosningunum í röð.
„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda en þessi ákvörðun var þó ekki tekin fyrr en núna,“ sagði Sigmundur Davíð í kvöldfréttum útvarps. „Ég hafði viljað reyna í lengstu lög að láta þetta ganga saman. Það er ekki auðveld ákvörðun fyrir mann sem hefur verið formaður í hundrað ára gömlum flokki að segja skilið við hann en ég mat það svo á endanum að þessu væri ekki viðbjargandi.“
„Það má segja að það sem hafi endanlega gert útslagið var þegar maður sá að menn væru tilbúnir til þess að fórna öðrum kosningunum á aðeins einu ári, fórna öðrum kosningum, fylgi flokksins og stöðu, til þess að losna við mig, og reyndar fleiri líka,“ sagði Sigmundur Davíð. „Þegar það er orðið ljóst að markmiðið er þetta stórt í hugum fólks, að öllu sé til fórnandi þá fer maður að velta því fyrir sér hversu lengi maður eigi að berjast fyrir því að fá að vinna með fólki sem er alltaf að hugsa um að koma manni frá, koma manni fyrir kattarnef.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í hádegisfréttum útvarps að reynt hefði verið að ná sáttum en að til þess hefði ekki verið gagnkvæmur vilji. Hann sagði Sigmund hvorki hafa viljað vinna með þingflokki né forystu Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð sagði í kvöldfréttum að það hafi nákvæmlega ekkert verið reynt til að ná sáttum innan flokksins. „Heldur þvert á móti farið í það sem er nú í stjórnmálum kallað hreinsanir á óæskilegu fólki, eldar kveiktir um allt endalaus og núna síðast þegar í ljós kom að kosningum yrði aftur flýtt og farið í kosningar eftir aðeins sex vikur, fimm vikur núna, þá var ákveðið að sá tími nýttist best til að bola mér og öðrum óæskilegum burtu. Þá sá maður að ef forgangsröðunin væri þessi þá væri maður ekki að fara að ná árangri með þessu fólki.“
Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverand borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, boðaði í stofnun Samvinnuflokksins, og sagði að þó hann færi ekki sjálfur í framboð væri þar margt fólk sem ætti eftir að vekja athygli. Þegar Sigmundur var spurður hvort hann yrði með í Samvinnuflokknum svaraði hann: „Ég er ekki að fara að ganga í annan flokk. Ég ætla að reyna að mynda breiðan hóp um að stofna nýja hreyfingu, nýjan flokk, fólk sem hefur svipaða sýn og ég og stuðningsmenn mínir á það hvernig hægt er að nýta tækifæri landsins. Vonandi fást sem flestir til að taka þátt í því,“ sagði Sigmundur Davíð. „Ég tók eftir þessum fréttum í gær og margt af því sem Björn Ingi bendir á er auðvitað alveg rétt og eflaust er hann með gott fólk með sér en ég er að taka þessa ákvörðun á mínum forsendum og félaga minna og stuðningsmanna í Framsóknarflokknum og byggi á þeim grunni.“