Ætla að veiða meira af hrefnu í ár en í fyrra

17.02.2017 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrefnuveiðar verða væntanlega meiri í ár en í fyrra þar sem talsverð eftirspurn er meðal erlendra ferðamenn eftir hrefnukjöti á veitingastöðum. Þetta segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar og IP-drefingar ehf. Veiðar hefjast í lok apríl eða byrjun maí. Útgefinn kvóti er 224 dýr en veiðar eru alla jafna mun minni. 

Í fyrra hafi veiðst 46 dýr. Það er meira en árið 2015 þegar 30 dýr veiddust. Í fyrra og hitteðfyrra hafi þurft að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi til að anna eftirspurn, segir Gunnar. 

Veitingastaðir kaupa um 60% af hrefnukjötinu og 40% fer til verslana. Í frétt á vef AlJazeera segir að straumur erlendra ferðamanna til Íslands hafi ýtt undir hvalveiðar. Gunnar segir að það megi vissulega til sanns vegar færa. Um 100 veitingastaðir bjóði upp á hrefnusteik, þar af ríflega helmingur allt árið um kring. Síðasta sumar hafi einnig aukist sala á hrefnukjöti í matvöruverslunum. 

IP-útgerð hefur verið rekin með tapi. Í frétt DV segir að tapið hafi numið rúmum sjö milljónum króna 2015. Gunnar segir að hagur fyrirtækisins hafi vænkast í fyrra. Þá sé IP-dreifing rekin með hagnaði.