Ræstingakonan hefur orðið
Nýlega kom það fram í fréttum að ræstingafólk byggi við einna verst kjör allra á íslenskum vinnumarkaði. Ræstingar voru öldum saman að mestu kvennastarf og í þættinum verða lesnar tilvitnanir í ræstingakonur fyrri tíma um leið og fjallað verður um líf þeirra og starf. Meðal þeirra sem koma við sögu er indverska vinnukonan Janabai sem uppi var á 14. öld og orti ljóð, hin enska Bridget Holmes sem uppi var á 17. öld og hvílir í Westminster Abbey, og 20. aldar ræstingakonurnar Elka Björnsdóttir og Maja Ekelöf. Elka vann við ræstingar í Reykjavík á árunum 1917-1922 og lýsir lífi sínu í merkri dagbók sem gefin var út árið 2012. Maja Ekelöf var sænsk og samdi upp úr dagbók sinni bókina „Skýrsla úr skúringafötu" (Rapport från en skurhink) sem fékk verðlaun í samkeppni hjá forlaginu Rabén & Sjögren árið 1970. Einnig verður flutt viðtal við Jóhönnu Þ. Guðjónsdóttur sem starfar nú við ræstingar í Reykjavík. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Ragnheiður Steindórsdóttir.