Hvunndagshetjan Auður Haralds
Þáttur helgaður ævi og störfum rithöfundarins Auðar Haralds sem lést í upphafi árs. Á ferli sínum fékkst Auður við hin ýmsu störf, sem blaðamaður, pistlahöfundur og þýðandi en einnig við alls kyns verslunar-, skrifstofu- og verksmiðjustörf. Skáldsagnaskrif hennar vöktu þó mesta athygli og var Auði fátt óviðkomandi. Hún skrifaði af innsæi og hispursleysi um margt sem ekki hafði verið áberandi í íslenskum bókmenntum áður; um veruleika fátækra verkakvenna, einstæðra mæðra og heimilisofbeldi. Fyrsta skáldsaga Auðar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979 og opnaði fljótlega umræðu um kvennakúgun og úr sér gengin samfélagsgildi. Eftir Auði liggja einnig vinsælar barna- og ungmennabækur á borð við Baneitrað samband á Njálsgötunni og sögurnar um prakkarann Elías. Í þættinum rýnum við í helstu verk hvunndagshetjunnar með góðum gestum. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.