Fjárlögin í fínum fötum
Tríóið Gadus Morhua, sem skipað er þeim Björk Níelsdóttur, Eyjólfi Eyjólfssyni og Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, ræðst til atlögu við íslensku fjárlögin, söngvasafn Sigfúsar Einarssonar og Halldórs Jónassonar frá árunum 1915-1916. Söngvasafnið var svo vinsælt að upp úr því var sungið á hverju heimili áratugum saman. Vinsældir fjárlaganna svokölluðu eru ef til vill að dala með minnkandi söng á heimilum landans, en Gadus Morhua tekur þau nú upp á arma sína á sinn einstaka hátt. Hryggjarstykkið í efnisskrá Gadus Morhua eru íslensk og erlend þjóðlög, klassísk einsöngslög í eigin útsetningum og frumsamið efni þar sem fléttast saman hljómheimar barokksins og baðstofunnar á nýstárlegan hátt. Fjárlögin sæta sömu rannsókn og meðferð. Langspil, barokkselló, flauta og fáein slagverkshljóðfæri eru hljóðfærakostur sveitarinnar, sem og þrjár söngraddir, og býður þetta upp á víða útsetningarmöguleika, þó einfalt og á vissan hátt stílhreint sé. Og til að halda arfi í samhengi við nýja sköpun og áframhaldandi líf tvinnar Gadus Morhua saman við herlegheitin frumsaminni tónlist og ljóðum til að brjóta upp fjárlagasönginn. Efnisskráin, þ.e. tónleikarnir, spretta því úr gamalkunnum sönglögum sem voru og eru þjóðinni harla kær. En opnast um leið mót forvitnilegri framtíðinni, með lúmskum, ferskum vindum pönks og framúrstefnu.
Umsjón: Melkorka Ólafsdóttir.