Einn á ferð og oftast ríðandi
Fjallað er um skáldið og hestamanninn Sigurð Jónsson frá Brún (1898-1970). Sigurður frá Brún var kunnur maður á sinni tíð. Hann var fæddur á Brún í Svartárdal í Húnavatnssýslu og kenndi sig jafnan við þann bæ. Sigurður var gott skáld og mjög persónulegur. Einkum var hann kunnur hestamaður, fór víða með hross um byggðir og óbyggðir landsins. Gaf hann út tvær bækur um hesta og dregur þátturinn nafn af fyrri bókinni. Tvær kvæðabækur gaf Siguður út sem heita Sandfok og Rætur og mura. Hann var lengi farkennari, kenndi börnum víða um land og er brugðið upp mynd af kennaranum Sigurði í þættinum. Síðustu árin var hann næturvörður í Reykjavík. Í þættinum verða lesin nokkur ljóð eftir Sigurð frá Brún og loks snjallt kvæði sem Guðmundur Böðvarsson orti að honum látnum. Umsjónarmaður er Gunnar Stefánsson.
(Áður á dagskrá 2011)