Tónskáldasjóður RÚV og STEFs hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Það gerir sjóðurinn m.a. með því að veita fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang. Einnig er tilgangur sjóðsins að veita fjárstuðning við nýsköpun verka til flutnings í miðlum RÚV. Sjóðurinn úthlutar styrkjum þrisvar á ári samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á grundvelli samþykkta hans og verklagsreglna stjórnar. Sjóðurinn er gegnumstreymissjóður sem er fjármagnaður af RÚV og með hluta þeirra höfundarréttargreiðslna sem RÚV greiðir á ári hverju. Úthlutað er styrkjum að upphæð um það bil 25 m.kr árlega til u.þ.b. 40-70 verkefna.

Stjórn sjóðsins

Stjórn sjóðsins skipa þrír aðilar; útvarpsstjóri, Stefán Eiríksson, Védís Hervör Árnadóttir fulltrúi Félags tónskálda og textahöfunda og Tryggvi M. Baldvinsson fulltrúi Tónskáldafélags Íslands. STEF tilnefnir aðila FTT og TÍ. Ritari sjóðsins er Þóra Pétursdóttir, starfsmaður RÚV.

Saga sjóðsins

Saga sjóðsins spannar um fimmtíu ár en stofnskrá núverandi sjóðs var undirrituð þann 3. apríl 2017. Þar renna saman tveir forverar hans, Tónskáldasjóður RÚV og Tónskáldasjóður Rásar 2. Fjölmörg verkefni af ólíkum stærðargráðum hafa hlotið stuðning en má þar nefna óperuna Ragnheiði, ýmis verkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Myrka Músíkdaga, tónlist í leiksýningum, tónlisti fyrir þáttaraðir á RÚV ofl. Jón Nordal sat í stjórn Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins í 47 ár allt til ársins 2017. Eiríkur Tómasson sat í stjórn sjóðsins í 28 ár og Hörður Vilhjálmsson var starfsmaður sjóðsins árum saman en hann lét af þeim störfum árið 2015.

Úthlutanir

Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar á ári.

Tilkynning um verklok

Verklok eru tilkynnt með því að uppfæra stöðu umsóknar í umsóknarforminu. Þau sem sóttu um áður en nýtt umsóknarkerfi var tekið upp geta tilkynnt um verklok með því að senda tölvupóst á netfang sjóðsins, tonskaldasjodur@ruv.is.

Umsóknarfrestir eru

  • 15. maí
  • 15. ágúst
  • 15. desember