Jafnlaunavottun
RÚV hlaut jafnlaunavottun fyrst árið 2019 og hefur hlotið viðhaldsvottun árlega síðan.
RÚV ohf. starfar í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Jafnréttisáætlun er staðfest af Jafnréttisstofu til þriggja ára í senn og felur í sér markmið og aðgerðir í jafnréttisstarfi innan RÚV. Launaákvarðanir byggja á málefnalegum forsendum og greiða skal sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Laun taka mið af eðli verkefna, kjarasamningum, ábyrgð, menntun, starfsreynslu, persónulegri hæfni og frammistöðu í starfi. Stjórnendur bera ábyrgð á að rýna laun mánaðarlega með tilliti til jafnlaunasjónarmiða.
RÚV ohf. hlaut jafnlaunavottun þann 15. febrúar 2019 og hefur hlotið viðhaldsvottun árlega síðan, þar sem vottað hefur verið að jafnlaunakerfi RÚV uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Umfang jafnlaunakerfisins lýtur að öllum starfsmönnum RÚV og vottunaraðgerðir snúa því að allri starfsemi félagsins.
Ákvarðanir um laun eru teknar í samræmi við ferli um launaákvarðanir sem er verklagsregla í jafnlaunakerfi. Jafnlaunastefnan felur í sér skuldbindingu um stöðugar umbætur, eftirlit og viðbrögð. Jafnlaunamarkmið RÚV eru endurskoðuð árlega í samræmi við niðurstöður launagreiningar. Jafnlaunagreining er gerð á launum alls starfsfólks tvisvar á ári þar sem greindur er leiðréttur og óleiðréttur launamunur mánaðarlauna annars vegar og heildarlauna hins vegar. Brugðist er við niðurstöðum með umbótum eftir þörfum en umbótastarf í tengslum við rekstur jafnlaunakerfis er stöðugt allt árið um kring.
25. október 2021