Hjá RÚV starfar kraftmikill og fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur verk sín af lífi og sál og er stolt af starfi sínu. Vinnustaðurinn er lifandi þekkingar- og nýsköpunarsamfélag sem einkennist af fróðleiksfýsn, framsækni, víðsýni og sköpunarkrafti. Starfsfólk hefur almannaþjónustuhlutverk RÚV ávallt að leiðarljósi.
Fjölbreytileiki, jafnrétti og jafnræði
RÚV ber að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins í dagskrá og allri starfsemi. Það er stefna RÚV að þar starfi fjölbreyttur hópur fólks.
Jafnrétti kynja er hornsteinn í ytra og innra starfi. Sérstaklega er litið til þátta er snúa að kynjum, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund og uppruna, í samræmi við stefnu Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva um áherslu á fjölbreytileika.
Fólk
Það er stefna RÚV að skapa sveigjanlegt starfsumhverfi sem laðar að hæfasta starfsfólkið á sérhverju sviði.
Þar starfar saman fólk með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu, skoðanir og nálgun sem stuðlar að því að ólík sjónarhorn endurspeglist í efnistökum og umfjöllun. Þetta kemur notendum til góða og eykur virði innihaldsins.
Velferð, vellíðan og öryggi starfsfólks er í forgrunni á vinnustaðnum.
Menning
Menning RÚV endurspeglar virðingu fyrir samstarfsfólki, hlutverki og samfélagslegum skyldum Ríkisútvarpsins. Samstarf byggist á virku samtali og hvetjandi og hreinskiptnum samskiptum þar sem hlustað er á ólík sjónarmið til að hreyfa verkefni í rétta átt.
Vinnustaðamenningin einkennist af jafnræði, samvinnu, umhyggju og sterkri liðsheild. Brugðist er af festu við hvers kyns háttsemi sem elur af sér óheilbrigða menningu og vinnur gegn markmiðum um virðingu og jákvæða samskiptahætti.
Þekking
RÚV stuðlar að þróun þekkingar með virku fræðslustarfi og veitir starfsfólki tækifæri til vaxtar. Ábyrgð á útvíkkun þekkingar liggur hjá starfsfólki þar sem frumkvæði og jákvæðni í garð umbóta og þróunar er lykilatriði. Samstarf við ytri hagaðila er mikilvægt fyrir slíkan vöxt og rúv starfar í samvinnu við háskóla, stofnanir, fagfélög og aðra fjölmiðla innanlands sem utan.
Gæði
Starfsfólk RÚV nýtur sjálfstæðis í starfi og hefur fagmennsku að leiðarljósi í verkefnum sínum. Starfsfólk sýnir aga og ábyrgð í samræmi við stefnu og mikilvægt hlutverk almannaþjónustumiðils. Rýni, endurgjöf og virkt samtal milli samstarfsfólkseykur gæði og vægi verkefna.