FLYTJANDI Úlfar
LAG Rob Price og Úlfar Viktor Björnsson
ÍSLENSKUR TEXTI Elín Sif Hall
ENSKUR TEXTI Rob Price

Nafn: Úlfar Viktor Björnsson

Ertu með gælunafn?
Þau eru ofboðslega mörg, sum vilja kalla mig Úlli á meðan aðrir hafa búið til frumlegri nöfn eins og Flúffi og Flúflú. Þegar ég var lítill (já, minni en ég er í dag) vildi ég alls ekki bendla mig við fyrsta nafnið mitt þannig ég tók upp millinafnið mitt. Þá var ég svo skotinn í Vigga í Írafár og vildi vera eins og hann og tók því upp sama gælunafn. En í dag geng er ég aðallega bara Úlfar fyrir flestum.

Áttu gæludýr?
Já, ég á einn eldgamlan og heyrnarlausan voffa sem heitir Perla og er af tegundinni Cavalier King Charles Spaniel.

Ertu með húðflúr?
Já, ég er með tvö húðflúr. Á hægri upphandleggnum mínum er ég með úlfahjörð í vatnslitastíl. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að báðir afar mínir úr báðum ættliðum heita Úlfar – úr móður og föðurætt. Þannig nafnið er mjög kært í minni fjölskyldu. Wiebke Turner hannaði þetta fallega flúr sem ég tileinkaði þeim báðum. Á hægri úlnlið er ég síðan með setninguna “All is beautiful“. Fjölbreytileikinn er fyrir mér það fallegasta við mannkynið. Mér finnst fátt fallegra en að fylgjast með manneskju blómstra í hennar eigin skinni og vera fullkomlega óhrædd við að vera nákvæmlega hún sjálf.

Hvert er besta Eurovision lagið, íslenskt eða erlent?
Besta Eurovision lag allra tíma er að sjálfsögðu Euphoria, ég held að ekkert annað lag kemst í nálægð við það og hvað þá sviðssjarmann hennar Loreen. Að því sögðu er það ekki mitt uppáhalds lag. Mitt allra uppáhalds Eurovision lag sem kemur mér alltaf í gott skap og peppar mig alltaf í gang er Invincible með Carolu. Það er eitthvað við það sem nær að sannfæra mig í hvert skipti að ég sé í raun ósigrandi og að ástin muni 100% sigra að lokum. Besta íslenska Eurovision lagið er klárlega í mínum huga Hatrið mun sigra – það er líka bara allt kynþokkafullt við öskrandi leðurklæddan Matta. Þau hristu líka hressilega upp í Eurovision heiminum og ég virði það.

Hvaða þrjú orð lýsa þér best?
Metnaðarfullur, óhræddur og samkvæmur sjálfum mér.

Ertu með leynivopn í keppninni?
Já, en ef ég myndi segja frá því þá væri það ekki lengur leynivopn.

Það er mjög mikilvægt matarboð framundan. Hvað eldar þú?
Ef ég væri að halda mjög mikilvægt matarboð væri best fyrir alla að ég sæi ekki um eldamennskuna svo ég verði engum að voða. En ég myndi bjóða upp á naut og humar – hin heilaga tvenna klikkar seint.

Hversu sterka chili sósu þolir þú?
Ég bjó í Argentínu og þar elska þau sterkan mat svo ég náði að byggja upp ansi öflugt þol fyrir sterkum mat. Ég hef borðað pizzu með sterkasta chilli pipar í heimi, Carolina Reaper og ég var veikur nokkra daga eftir hana. En ég fýla veeel sterkan mat.

Hvaða kvikmynd lýsir best lífi þínu?
Sódóma Reykjavík, skrautlegt og kaotískt en alltaf ævintýri og nóg að gera.

Hvaða stjörnumerki ertu og skiptir það máli?
Ég er í voginni. Mér finnst mjög gaman að pæla í stjörnuspeki en ég myndi aldrei segja að í þeim felist einhver heilagur sannleikur. Ég hef farið til stjörnukortalesara og það var fullt áhugavert sem kom úr þeim lestri.

Hvað gerirðu og hugsar um áður en þú stígur á sviðið?
Ég reyni að núllstilla mig alveg og ímynda mér að ég sé í stofunni heima. Það eina sem ég get gert er mitt besta!

Íslenskur texti – Betri maður

Enskur texti – Impossible