Aldrei verið hægt að fiska bara eina tegund

„Hvað kallast brottkast?“ spyr Þórhallur Ottesen, sem starfaði sem eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár, í viðtali við Kveik. Hann segir skilgreiningar hér á landi á því hvað teljist til brottkasts og sóunar fiskistofna, frjálslegar í meira lagi.

„Hjá Norðmönnum kallast það brottkast á uppsjávarveiðum að slaka korkateininum niður og hella úr nótinni. Þá kallast það brottkast en hérna kallast það að sleppa fiski,“ segir Þórhallur og nefnir fleiri dæmi um frjálslegar túlkanir á brottkasti.

„Það er alveg sama með botntrollið hérna. Menn eru kannski búnir að setja glugga á trollin þannig að það komist ekki meira en 10 tonn inn í það, þá springur upp glugginn og fiskurinn fer allur út. Þetta er brottkast í Noregi en hérna er þetta bara að sleppa fiski.“

„Það hefur aldrei verið hægt að fara á sjó og fiska bara eina tegund af fiski,“ segir hann og bendir á að í skýrslum Hafrannsóknarstofnunar og Fiskistofu um mælt árlegt brottkast sé eingöngu verið að mæla stærðarbundið brottkast þorsks og ýsu. Ekki það brottkast sem á sér stað þegar heilu tegundirnar eru sorteraðar frá aflanum og hent af einhverjum ástæðum. Til dæmis meðafla á karfaveiðum og eins og sást í myndböndum af brottkasti um borð í Kleifaberginu í Kveik í síðustu viku. Slíkt brottkast er illmælanlegt og því ekki inni í þeim rannsóknum sem vísað hefur verið til í umræðunni síðustu viku.

„Varðandi annað brottkast er mjög erfitt að eiga við það,“ segir Þórhallur

Nær ekkert af þorski veiðist á grásleppu. (Mynd Rúnar Snær Reynisson/RÚV)

Þorskbunkar, selavaða og friðaðir fuglar í netum

Þórhallur furðar sig líka á grásleppuveiðum en undantekning er að bátar á þeim veiðum „Það er alveg furðulegt að fylgjast með því að nánast ekkert af þessum bátum landar þorsk,“ segir hann.

„Þegar ég var þarna hjá Fiskistofu, vorum við að reyna að senda menn með þessum grásleppubátum, og það kom fyrir, man ég alla vega í einu tilviki, að það voru sjö tonn af þorski í þeirri veiðiferð. Eftirlitsmaðurinn spurði hvernig stæði á því að þessi bátur væri aldrei búinn að landa þorski. Hann sagði þá, skipstjórinn, að það hlyti að hafa flætt yfir svæðið þorskur. En hann lagði samt ofan í sama.“

Eftirlitsmaðurinn tilkynnti honum þá að hann kæmi með honum út næst. Hann færi ekki nema með eftirlitsmanni. Tvo daga í röð fann skipstjórinn ástæður til að fara ekki en eftir nokkra daga var loksins farið út aftur. „Þá var ekkert orðinn eftir nema þorskmorka í netunum og svo grásleppa því að hún þolir náttúrulega að vera lon og don í netunum,“ segir Þórhallur sem nefnir einnig dæmi af því þegar eftirlitsmaður fór í róður með grásleppusjómanni sem dró í það skipti net sem í voru 17 selir og fjöldi fugla, meðal annars alfriðuð fuglategund. Þegar sjómaðurinn var spurður að því hvers vegna hann hefði aldrei áður gert grein fyrir meðafla eins og þessum í aflaskýrslum áður, sagði hann um að ræða hreina tilviljun, þó vitað væri að netin hefðu legið á nákvæmlega sama stað svo vikum skipti.

„Og þarna getur eftirlitsmaðurinn ekki gert neitt. Fiskistofa getur ekkert gert,“ segir hann.

Fiskistofa. (Mynd RÚV)

Gæslan jafn svelt og Fiskistofa

Eins og fram kom í síðasta þætti Kveiks telja Norðmenn öflugasta vopnið í baráttu sinni við brottkast vera eftirlit á miðunum. Norska strandgæslan er við slíkt eftirlit allt árið um kring og fer um borð í skip og báta sem eru við veiðar og framkvæmir þar nákvæma skoðun á afla, aflabókhaldi og veiðarfærum. Slíkar skoðanir voru ríflega 1600 í fyrra. Hér á landi er samskonar eftirlit Fiskistofu og Landhelgisgæslu talið í dögum. Samtals tólf dögum allt síðasta ár þar sem farið var um borð í 84 skip og báta.

Þórhallur segir það engin ný sannindi að slíkt eftirlit sé það árangursríkasta. En þegar í hlut eigi tvær opinberar stofnanir sem glími við skort á fjármagni og pólitískum stuðnini, sé ekki von til þess að úr rætist.

„En það er eins með Gæsluna, eins og eftirlitið hjá Fiskistofu. Það er ekkert verið að eyða neinum peningi í það. Varðskipin liggja bara við króka inni á fjörðum,“ segir Þórhallur Ottesen, fyrrverandi deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu, í viðtali við Kveik.