Kosningavefur RÚV

Um kosningaprófið 2024

Hvers vegna er RÚV með kosningapróf?

Tilgangur kosningaprófsins er að hjálpa kjósendum að nálgast stjórnmálin og finna flokka og frambjóðendur sem eru þeim sammála. Kosningaprófið er til gamans gert og ætti í besta falli að vera leiðarvísir fyrir kjósendur en það hefur líka alvarlegri undirtón.

Í kosningaprófinu fá kjósendur að sjá hvar flokkar og frambjóðendur standa gagnvart 26 fullyrðingum og hvaða mál þeir telja brýnust. Kjósandinn svarar sömu spurningum og getur þannig borið sig saman við mismunandi flokka.

Við stillum raunverulegum viðfangsefnum stjórnmálanna sem eru á döfinni fyrir alþingiskosningarnar upp á einfaldan hátt en gefum framboðunum kleift að rökstyðja sína afstöðu og greina frá sínu sjónarhorni.

RÚV hefur staðið fyrir kosningaprófi í aðdraganda síðustu kosninga til alþingis, sveitarstjórna og forseta. Prófið fyrir forsetakosningarnar í júní framkallaði hátt í 100 þúsund niðurstöður fyrir almenning. Það er þess vegna augljóst að áhuginn er mikill.

Hvaða flokkar fengu að svara kosningaprófinu?

Allir flokkarnir sem skiluðu gildu framboði til Landskjörstjórnar fengu að taka þátt auk allra frambjóðenda á listum flokkanna. Samtals eru það 1.213 frambjóðendur í sex kjördæmum í ellefu flokkum.

Allir flokkarnir svöruðu prófinu. Samtals 622 frambjóðendur tóku afstöðu til meira en 85 prósenta fullyrðinganna og hægt er að reikna með í niðurstöðum kjósenda í kosningaprófinu.

Hvernig var svörum frambjóðenda safnað?

Kosningaritstjórn RÚV hafði samband við kosningastjóra og fulltrúa allra flokka og bauð þeim að dreifa vefhlekk á kosningaprófið til allra frambjóðenda. Allir þurftu að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þannig var hægt að auðkenna frambjóðendur og tryggja að svör í þeirra nafni væru raunverulega þeirra.

Svörum var safnað frá 7. nóvember 2024. Upphaflegur skilafrestur var framlengdur til þess að koma til móts við framboð sem ekki höfðu kost á að svara í tæka tíð. Síðasta svarið barst 15. nóvember 2024.

Hvernig voru fullyrðingarnar og spurningarnar gerðar?

Þegar fullyrðingarnar í kosningaprófinu voru samdar var það fyrst og fremst haft að leiðarljósi að þær fjölluðu um viðfangsefni kosninganna, að auðvelt væri að taka afstöðu til þeirra og að afstaða til þeirra varpaði ljósi á mismunandi afstöðu flokka.

Nokkrar fullyrðingar í kosningaprófinu hafa áður verið í kosningaprófi RÚV og fjalla um klassísk viðfangsefni stjórnmála á Íslandi. Aðrar eru frekar byggðar á stjórnmálaumræðu dagsins í dag og á áherslum flokkanna fyrir kosningarnar í ár.

Til hliðsjónar var könnun sem Gallup gerði fyrir fréttastofu RÚV í október um helstu kosningamálin.

Lagt var upp með að hafa spurningarnar um það bil 25. Þær enduðu á að vera 26 auk forgangsröðunar í lok kosningaprófsins.

Hvernig er niðurstaða kosningaprófsins reiknuð?

Reiknilíkanið að baki kosningaprófinu er fengið frá sænska ríkissjónvarpinu SVT. Líkanið er opið öllum á GitHub. Hugbúnaðarþróun SVT gaf góðfúslegt leyfi fyrir notkun þess og helstu innviða hins sænska Valkompass.

Þegar líkindi kjósanda og framboðs eru reiknuð eru bæði svör og áherslur (mikilvægar fullyrðingar) kjósanda og framboða taldar með.

Ef þú hefur merkt fullyrðingu sem mjög mikilvæga vegur sú fullyrðing þyngra en aðrar í niðurstöðunum. Með öðrum orðum: Með því að merkja mikilvæga fullyrðingu fjarlægistu enn frekar flokk og frambjóðendur sem þú ert ekki sammála og færist nær þeim sem þú ert sammála.

Það er mögulegt að fá bæði 100% líkindi og 0% líkindi með flokkum eða frambjóðendum.

Í kosningaprófinu eru þrjár mismunandi gerðir spurninga. Allar vega í grunninn jafnt í niðurstöðunum. Flestar spurningarnar eru afstöðuspurningar þar sem kjósendur og framboð eru krafin um afstöðu til pólitískra fullyrðinga. Þá eru nokkrar samanburðarspurningar þar sem óskað er eftir skoðun á því hvaða breytingar ætti að gera, miðað við stöðuna í dag. Að lokum er ein forgangsröðunarspurning. Þar er hægt að velja allt að þrjú forgangsmál.

Þú getur aðeins borið þig saman við þá frambjóðendur sem kusu að taka þátt í kosningaprófinu.

Afstaða flokka til fullyrðinganna í kosningaprófinu var fengin frá flokkunum sjálfum. Afstaða frambjóðenda flokka hefur ekki áhrif á afstöðu flokksins sjálfs. Þess vegna getur kjósandi fengið bestu samsvörun með einum flokki og svo með frambjóðanda úr öðrum flokki.

Á niðurstöðusíðunni er listi frambjóðenda síaður eftir þeim sem bjóða sig fram í þínu kjördæmi. Einnig er hægt er að skoða líkindi með öllum frambjóðendum á landsvísu.

Get ég treyst niðurstöðu kosningaprófsins?

Niðurstaðan sem þú færð úr kosningaprófinu sýnir þér hversu vel þínar eigin skoðanir (afstaða þín til fullyrðinganna) ríma við þá flokka sem bjóða fram til Alþingis. Það þýðir ekki að líta eigi á niðurstöðuna sem skilaboð um hvað þú eigir að kjósa í kosningunum.

Í mörgum tilfellum er nokkuð mikið bil milli þeirra flokka sem eru líkastir þér. Kynntu þér endilega fleiri flokka en þann sem kosningaprófið segir best samrímast þínum skoðunum.

Samkvæmt stjórnmálafræðinni mæla kosningapróf ekki eftirtalda hluti sem skipta máli í alþingiskosningum: Hvaða grunnlífsskoðanir maður hefur, hvaða flokk þú hefur áður kosið, hvort manni finnist flokkur eða frambjóðendur hans hafa staðið sig vel, hvort maður hafi trú á leiðtogum flokksins og svo framvegis.

Niðurstaða kosningaprófsins getur þess vegna aðeins verið vísbending um hvað þú ættir að kjósa.